spot_img
HomeLandsliðinEuroBasket 2025Hetjuleg barátta íslenska liðsins ekki nóg gegn sterku liði Slóvakíu

Hetjuleg barátta íslenska liðsins ekki nóg gegn sterku liði Slóvakíu

Ísland laut í lægra haldi gegn Slóvakíu í Ólafssal í kvöld í þriðja leik sínum í undankeppni EuroBasket 2025. Íslenska liðið enn án sigurs í keppninni eftir fyrstu þrjá leikina á meðan að Slóvakía hefur unnið tvo og tapað einum.

Fyrir leik

Leikir þessarar viku hjá Íslandi eru annar gluggi undankeppninnar af þremur. Sá síðasti fór fram fyrir um ári síðan, en þá laut liðið í lægra haldi gegn Rúmeníu úti í Constantan í fyrsta leik áður en það tapaði svo aftur fyrir Tyrklandi í leik tvö heima í Ólafssal. Hvorugt var tapið þó neitt sérstaklega stórt og gera því skóna að með smá heppni væri Ísland að fara inn í þennan annan glugga með tvo sigurleiki, en ekki tvö töp.

Slóvakía aftur á móti náði í sigur. Heima í Slóvakíu gegn Rúmeníu, en svo töpuðu þær stórt fyrir Tyrklandi ytra.

Langt var á milli þessara tveggja fyrstu glugga undankeppninnar og óumflýjanlega voru því þónokkrar breytingar á liðinu. Ein af þeim stærri kannski sú að Birna Benónýsdóttir er ekki með nú vegna meiðsla. Þá vantaði einnig í hópinn Ísoldi Sævarsdóttur, sem er hætt og Jönu Falsdóttur, sem er fór í háskólaboltann í Bandaríkjunum nú í haust. Stærsta viðbótin í liðið í staðinn óumdeilanlega Danielle Rodriguez, sem verið hefur með betri leikmönnum á Íslandi á síðustu árum, leikur fyrir Fribourg í Sviss á yfirstandandi tímabili, en fékk íslenskan ríkisborgararétt í desember á síðasta ári og því gjaldgeng með íslenska landsliðinu í fyrsta skipti í kvöld.

Byrjunarlið Íslands

Danielle Rodriguez, Kolbrún María Ármannsdóttir, Tinna Guðrún Alexandersdóttir, Thelma Dís Ágústsdóttir og Þóra Kristín Jónsdóttir.

Gangur leiks

Slóvakía opnar leikinn með þrist í fyrstu sókn. Íslenska liðið svarar því með átta stigum í röð, þar á meðal með þristum frá Thelmu Dís og Danielle og eru með yfirhöndina á upphafsmínútunum. Heimakonur ná svo enn að bæta í forskot sitt undir lok fyrsta fjórðungs, ekki síst vegna sterkar innkomu Diljáar Agnar Lárusdóttur, en þegar leikhlutinn var á enda munaði átta stigum, 24-16.

Hægt en örugglega nær slóvaska liðið að vinna á forskoti Íslands í upphafi annars leikhlutans. Danielle Rodriguez gerir þó áfram vel í að halda Íslandi í forystu, en munurinn bara tvö stig þegar fimm mínútur eru eftir af hálfleiknum, 30-28. Gestirnir láta svo kné fylgja kviði undir lok hálfleiksins og eru komnar með fimm stiga forystu þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 35-40.

Danielle Rodriguez var frábær í fyrri hálfleiknum í sínum fyrsta leik fyrir liðið með 19 stig. Henni næst var Diljá Ögn Lárusdóttir með 6 stig.

Með tveimur þristum frá Kolbrúnu Maríu og Þóru Kristínu kemst Ísland aftur í forystu á upphafsmínútu seinni hálfleiksins, 41-40. Íslenska liðið heldur Slóvakíu stigalausum fyrstu fimm og hálfa mínútu seinni hálfleiksins, en þegar þær loks skora er það þristur, 45-43. Leikurinn helst þó nokkuð jafn til loka þriðja fjórðungsins, en staðan fyrir lokaleikhlutann er 53-55 gestunum í vil.

Slóvaska liðið er með forystuna vel inn í fjórða leikhlutann. Ná aðeins að bæta í og eru komnar níu stigum yfir þegar rúmar fimm mínútur eru til leiksloka, 55-64. Þá forystu nær Slóvakía að fara með inn í brakmínútur leiksins og er munurinn sex stig þegar ein og hálf eru eftir, 63-69. Undir lokin reynir íslenska liðið hvað það getur til að vinna forskotið niður, en allt kemur fyrir ekki. Slóvakía sigrar að lokum nokkuð örugglega 70-78.

Kjarninn

Íslenska liðið gerði sér gífurlega erfitt fyrir varnarlega í kvöld með því að taka eiginlega engin fráköst. Voru vissulega aðgangsharðar og ágætlega skipulagðar varnarlega, en alltaf þegar það kom að því að hirða boltann eftir klikkað skot hjá Slóvakíu, þá gekk það ekki. Gestirnir fengu endalaus tækifæri til þess að koma boltanum í körfuna og var það á endanum það sem var munurinn á liðunum og gerði útum leikinn.

Atkvæðamestar

Danielle Rodriguez var best í liði Íslands í dag með 29 stig og 5 fráköst. Þá bætti Thelma Dís Ágústsdóttir við 11 stigum, 4 stoðsendingum og Kolbrún María Ármannsdóttir var með 10 stig og 3 fráköst.

Hvað svo?

Næsti leikur Íslands í keppninni er komandi sunnudag 10. nóvember gegn Rúmeníu kl. 17:00 heima í Ólafssal.

Tölfræði leiks

Myndasafn (Gunnar Jónatansson)

Viðtöl væntanleg

Fréttir
- Auglýsing -