spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHerramannssópurinn á lofti í Síkinu er Stólarnir kjöldrógu Njarðvík

Herramannssópurinn á lofti í Síkinu er Stólarnir kjöldrógu Njarðvík

Tindastóll tók á móti Njarðvík í fjórða leik liðanna í undanúrslitum Subway deildar karla í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í kvöld. Tindastóll gat tryggt sig í úrslit með sigri en Njarðvík gat komið einvíginu í oddaleik en þeir höfðu farið illa með Stóla í síðasta leik í Njarðvík.

Það var ljóst frá byrjun að heimamenn í Tindastól ætluðu ekki að láta hlutina í Njarðvík endurtaka sig og þeir tóku frumkvæðið í leiknum strax frá byrjun. Liðið spilaði hörkuvörn og gestirnir virkuðu ráðvilltir í sínum aðgerðum. Sóknarmegin gekk líka vel hjá Stólum, ekki síst hjá Adomas Drungilas sem setti 3 þrista í fyrsta fjórðung og ekki vildi Arnar Björnsson vera minni maður og setti 4 stykki. Staðan 34-14 eftir fyrsta leikhluta og gestirnir felldir á bakhlutann strax í byrjun. Sýningin hjá heimamönnum hélt bara áfram í öðrum leikhluta og stjarna Arnars Björnssonar hélt áfram að skína skært. Stólar léku á alls oddi og það endaði með jafnmörgum stigum og í fyrsta leikhluta, ótrúlegar tölur í hálfleik 68-34 og leikurinn búinn sem contest.

Þriðiji leikhluti var jafnari en hinir enda engin spenna lengur í leiknum. Taiwo Badmus byrjaði leikhlutann á tveimur körfum og Drungilas kom svo muninum í 40 stig stuttu seinna og mikil gleði í Síkinu. Þegar rúmar 2 mínútur voru liðnar af fjórða fjórðung setti Arnar frábæran þrist en virtist lenda á fæti Basile og snúa sig illa. Mikil læti urðu í kjölfarið, bæði meðal leikmanna og áhorfenda sem enduðu með því að Ólafi Helga var vísað úr húsi (2T) og einum áhorfanda var einnig hent út. Leikurinn hélt svo áfram og gestirnir reyndu að halda haus og minnka muninn en ekkert gekk og lokatölur eins og áður segir 117-76 fyrir Stóla.

Arnar Björnsson átti einn af þessum leikjum eins og við höfum séð í vetur, setti hvert skotið á fætur öðru og spilaði þess á milli hörkuvörn á Basile. Arnar endaði með 25 stig og 3 stolna bolta. Taiwo var stigahæstur með 27 stig og setti 90% skota sinna og þeir Keyshawn og Adomas áttu einnig fína leiki. Pétur Rúnar skoraði ekki stig en 9 stoðsendingar telja vel. Hjá gestunum var Basile mest áberandi með 19 stig, 7 stoðsendingar og 4 stolna.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

https://www.karfan.is/2023/04/pavel-er-med-a-hreinu-hvada-lidi-hann-vill-maeta-i-urslitum-eg-vil-fa-val/
https://www.karfan.is/2023/04/fannst-vid-vera-ofbodslega-litlir-i-okkur/
Fréttir
- Auglýsing -