{mosimage}
(Dettmann)
Þjálfari finnska liðsins, Henrik Dettmann, taldi eftir leikinn í gær að úrslitin hefðu verið í samræmi við handritið og átti þar við að leikurinn hefði þróast eins og við var búist. Finnar höfðu sigur en Dettmann segist ekki finna fyrir neinni pressu þó flestir telji að Finnar og Georgíumenn verði liðin sem vinni riðilinn.
„Álag eða pressa er hluti af íþróttum, ég tel að við (Finnar) og Georgíumenn verðum efst í riðlinum. Georgía hefur á að skipa þremur NBA leikmönnum en það er bara skemmtilegt að spila gegn sterkum þjóðum,“ sagði Dettmann en Finnar mæta Georgíu í Helsinki á miðvikudag í næstu viku.
Dettmann er ekki hrifinn af fyrirkomulaginu að keppt sé í Evrópukeppninni sem A og B þjóðir. „Fótboltinn hefur sýnt það að evrópska fjölskyldan getur hist á einu plani en í körfunni er það ekki að gerast. Þó Finnar og Íslendingar séu ekki að fara að verða Evrópumeistarar á næstunni þá ættu þessar þjóðir engu að síður að eiga möguleika á því að spila gegn þeim bestu. Þegar minni spámenn fá að leika gegn toppliðum þá verður körfuknattleikurinn bara betri,“ sagði Dettmann og sagði núverandi fyrirkomulag valda því að aðrar íþróttir geti komið höggstað á körfuboltann.
„Þegar keppt er á tveimur mismunandi stigum gefum við öðrum íþróttum forskot á okkur og þetta fyrirkomulag tel ég að sé sérlega óheppilegt fyrir minni lönd,“ sagði Dettmann að lokum.