spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHellaskoðun og rólegheit hjá KEF

Hellaskoðun og rólegheit hjá KEF

ÍR-ingar fengu heimsókn frá Kef-City í kvöld. ÍR-ingar hafa unnið tvo af fjórum sem af er en gestirnir hafa aðeins tapað einum leik og það í geggjaðri rimmu í Njarðvík. Heimamenn voru án Matta og Hákons í þessum leik og ekkert annað en öruggur sigur gestanna í spilunum.

 

Spádómskúlan: Í hroka sínum bendir kúlan á að ekki þurfi spádómsgáfu fyrir þennan leik. Vængbrotið lið ÍR á ekki séns í keflvískar orrustuþotur, rúst 68-95.

 

Byrjunarlið:

ÍR: Siggi, Martin, Robinson, Fissi Kalli, Daði

Kef: Hössi, Craion, Reggie, Gunnar, Javi

 

Gangur leiksins

Heimamenn voru augsljóslega meðvitaðir um að þeir þurftu að berjast af öllum kröftum í þessum leik og fyrstu mínúturnar litu ágætlega út. Robinson kom þeim yfir 5-3 með flottum þristi en um miðjan leikhlutann voru piltarnir frá Sunny-Kef komnir með öll völd og voru komnir 7-14 yfir. Borche tók þá leikhlé en það breytti litlu og gestirnir leiddu með 12, 15-27, eftir einn leikhluta.

 

Sæsi byrjaði annan leikhlutann á jákvæðan máta fyrir ÍR og smellti einum þristi. Þar með var því jákvæða lokið í bili og gestirnir tóku á hörku sprett. Þegar rétt rúmar þrjár mínútur voru eftir var staðan orðin 21-41 og útlit fyrir átakanlega niðurlægingu heimamanna. Drengirnir út bítlabænum komu þá andstæðingum sínum til aðstoðar og duttu aðeins í ævintýralandið og ákváðu að leggja sig svolítið fyrir leikhléið eins og kanínan fræga. Skjaldbakan var þrátt fyrir það talsvert á eftir og Keflavík 38-52 yfir í hálfleik.

 

Gestirnir byrjuðu betur í seinni hálfleik og juku muninn strax aftur í 20 stig eða svo. ÍR-ingar reyndu hvað þeir gátu og prófuðu svæðisvörn en Gunnar Ólafs slökkti í þeirri tilraun með þristum og einnig sýndi smiðurinn snjalli, Mantas Mockevicius, afar tignarlega spretti á þessum kafla. Úrslit voru í raun ráðin áður en þriðja leikhluta lauk en forskot gestanna var 22 stig eftir þann leikhluta, 52-74. Fyrir alla nema kannski Keflvíkinga var fjórði leikhluti ekkert sérstaklega skemmtilegur, algert formsatriði og lauk leikum með afar öruggum 74-94 sigri Keflavíkur.

 

Menn leiksins

9 leikmenn Keflavíkur skoruðu í leiknum og 5 þeirra 10+ stig. Gunnar Ólafs var frábær, var stigahæstur með 20 stig í fáum skotum, tók 5 fráköst og var einnig mjög góður varnarlega. Hössi spilaði einnig afar vel, skoraði 16 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar.

 

Kjarninn

ÍR-ingar spiluðu án Matta og Hákonar í kvöld. Menn vilja eðlilega ekki fela sig á bakvið slíkar afsakanir, eins og kom fram í máli Sigurðar í viðtali eftir leik, en staðreyndin er sú að það skiptir auðvitað máli. Það er sennilega ÍR-ingum fyrir bestu að gleyma þessum leik bara strax og horfa fram á veginn.

 

Lið Keflavíkur leit afskaplega vel út í kvöld. Þó svo að vængbrotið lið ÍR sé ekki mesti prófsteinninn er ljóst að það verður mjög athyglisvert að fylgjast með vegferð liðsins í vetur. Gunnar Ólafs er kominn inn á radarinn hjá öllum sem fylgjast sæmilega með, Mantas sýnir betri takta með hverjum leik…og pistillinn verður óþarflega langur ef ég held áfram að telja upp gæðaleikmenn liðsins!

 

Tölfræði leiks

Myndasafn

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson

Myndir / Þorsteinn Eyþórsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -