„Á innan við 12 mánuðum hef ég unnið tvo Íslandsmeistaratitla, bikarmeistaratitil, deildarmeistaratitil, farið á EM og gifti mig,“ sagði Helgi Már Magnússon við Karfan TV eftir að KR fagnaði sínum þriðja Íslandsmeistaratitli í röð! Helgi er hættur og það verður sjónarsviptir af þessum mikla leiðtoga í íslenskum körfuknattleik, sjálfur „Tjakkurinn“ er að yfirgefa sviðið.
Helgi sagði það ekki sjálfgefið að vera í þessum kringumstæðum, að berjast um alla titla og honum var þakklæti efst í huga nú þegar hann var búinn að spila sinn síðasta leik á glæsilegum og sigursælum ferli.