Helgi Rúnar Bragason hefur framlengt samning sinn við Þór Akureyri og mun þjálfa meistaraflokk kvenna næsta árið. Einnig var Páll Hólm Sigurðarson ráðinn aðstoðarþjálfari meistaraflokks kvenna. Páll mun ennfremur verða þol- og styrktarþjálfari beggja meistaraflokka Þórs.
Þór endaði í þriðja sæti 1. deildarinnar í fyrra eftir að hafa sigrað 16 leiki og tapað aðeins 8.
Samkvæmt frétt Þórs kvaðst Helgi Rúnar vera mjög ánægður með þessi skref sem nú eru tekin frá síðasta vetri kvennakörfunnar á Akureyri sem í raun hafi verið mikill lærdómur fyrir sig að fara í gegnum enda á sínu fyrsta ári sem meistaraflokksþjálfari enda margt sem þarf að huga að.
,,Ljóst var að það vantaði töluvert meiri stuðning við okkar starf og út frá því fór af stað sérstakt stuðningsmannanet undir lok tímabilsins, sem vann strax að því markmiði að gera umgjörð liðsins betra. Út frá því hefur nú verið skipað sérstakt kvennaráð sem mun halda vel utan um liðið í vetur og vinna að því markmiði að byggja upp kvennakörfuna til framtíðar enda eigum við margar efnilegar stúlkur sem eru að koma uppúr yngri flokka starfi félagsins.
Eitt af því, sem ég rak mig á síðasta vetur var að hafa ekki aðstoðarþjálfara mér við hlið til ráðleggingar og ég gerði einnig alltof lítið af skipulögðum styrktar- og þrekæfingum sem í dag er orðinn gríðarlega mikilvægur þáttur í uppbyggingu körfuboltans. Þegar ég sá svo að Páll Hólm var styrktarþjálfari A-landsliði kvenna í undankeppni EM í febrúar sl. var ég ákveðinn að ef ég fengi tækifæri til að vera með liðið annan vetur var ljóst að þetta væri rétti maðurinn mér við hlið. Palli er nefnilega einstakt ljúfmenni sem hefur góðan körfuboltagrunn og þekkingu og hefur verið aðstoðarþjálfari hjá mér áður í þjálfun yngri flokka. Hann hefur síðan náð sér í einkaþjálfaramenntun og hefur mikinn metnað til að vinna á körfuboltasviðinu sem styrktarþjálfari þannig að ég er gríðarlega ánægður og spenntur fyrir okkar samstarfi á ný.
Nú fer sú vinna í gang að peppa leikmenn upp fyrir komandi verkefnum og vonandi náum við að halda sem flestum frá síðasta vetri en það er þó er ljóst að einhver brottföll verða í hópnum og vonandi náum við að lágmarka það og við bjóðum þess í stað alla leikmenn velkomna norður sem hafa áhuga á að æfa og spila við toppaðstæður á næsta vetri í einu fallegasta bæjarstæði landsins sem hefur meðal annars allt uppá að bjóða hvað varðar nám og heimavist í menntaskólunum MA og VMA og svo aftur fjölbreytt háskólanám í HA“ sagði Helgi Rúnar og bætti því við að ef einhvern vantar frekari upplýsingar þá bara hafa samband við sig í síma 620-9090.