spot_img
HomeFréttirHelgi Rafn: Ólafshús og ekta skagfirskt læri

Helgi Rafn: Ólafshús og ekta skagfirskt læri

Helgi Rafn Viggósson fyrirliði Tindastóls var kátur á manninn þegar Karfan.is náði af honum tali í kvöld enda Stólarnir að vinna sinn annan deildarsigur í röð þegar þeir lögðu ÍR í Síkinu. Þegar við náðum í skottið á Helga sat hann að snæðingi og ekkert nema herramansmatur í boði.
 
,,Já, nú erum við strákarnir í smá jólaglaðning, við erum staddir hérna í Ólafshúsi að gæða okkur á ekta skagfirsku lambalæri frá KS,” sagði Helgi og laug því engu um að vera staddur í veislu með heimsins bestu aðföngum. Við ræddum þó aðeins um leik kvöldsins líka:
 
,,Nú eru menn hrokknir í gang enda kominn tími til. Þetta var hörku leikur í kvöld og þegar fyrsti sigurinn kemur þá er þetta fljótt að smitast svo þetta er bara það sem koma skal. Maður á bágt með að svara því af hverju við vorum svona seinir í gang á tímabilinu en þetta virðist vera einhver lenska hjá okkur. Ég veit ekki hvert svarið við þessu er og af hverju við erum oft svona seinir í gang því við ræddum það sérstaklega fyrir tímabilið að passa þetta en það klikkaði,” sagði Helgi og bætti við að það væri ljúft að fara inn í jólafríið með tvo sigra.
 
,,Já og eina dollu til viðbótar,” og vísaði þar í sigur Tindastóls í Lengjubikarnum. ,,Annars líst mér vel á nýja árið, nú gíra menn sig upp, æfa vel yfir hátíðarnar og mæta grimmir eftir áramótin.”
  
Mynd úr safni/ Hjalti Árnason
Fréttir
- Auglýsing -