08 Stockholm HR mætir Boras Basket á útivelli í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld. Leikurinn hefst kl. 18:04 að íslenskum tíma og verður í beinni tölfræðilýsingu á heimasíðu sænska sambandsins.
Helgi Magnússon og félagar í 08 Stockholm eru í níunda og næstneðsta sæti deildarinnar um þessar mundir og hafa tapað síðustu tveimur heimaleikjum en unnu síðasta útileik. Boras eru hinsvegar í bullandi toppbaráttu með Norrköping, Sundsvall og LF Basket og ekki langt þar undan eru Uppsala og Solna. 08 Stockholm hefur 10 stig í deildinni en Boras, Sundsvall og Norrköping 18 á toppnum. Eitt lið sker sig úr og það er ecoÖrebro án stiga á botni deildarinnar og því ljóst að hver leikur hjá þessum níu efstu liðum er gríðarlega mikilvægur.