KR-ingurinn og landsliðsmaðurinn Helgi Már Magnússon meiddist á ökkla á æfingu fyrr í vikunni. Eftir ómskoðun kom í ljós að meiðslin eru þess eðlis að þau munu að öllum líkindum hindra þátttöku hans á EM í Berlín í september.
Helgi var á æfingu í hádeginu á mánudaginn með öðrum landsliðsmönnum þegar óhappið varð. "Þetta var bara einföld hreyfing og engin læti en þá heyri ég smell," sagði Helgi í viðtali við Karfan.is. Hann sagðist hafa fundið það strax að þetta væri meira en einhver tognun og eitthvað væri ekki eins og það ætti að vera í fætinum.
Helga var komið hið fyrsta í ómskoðun sem leiddi í ljós að sin í fætinum sem kallast peroneus longus hafi slitnað og óvíst sé um framhaldið hjá Helga.
Þessi meiðsl eru afar sjaldgæf og vita þeir sjúkraþjálfarar sem Helgi hefur sett sig í samband við ekki til þess að þetta hafi gerst áður sem íþróttameiðsl og hvað þá að einhver hafi meðhöndlað þau áður sem slík. Þessi sin hefur það hlutverk að hafa ökklann stöðugann en allar líkur eru á að þessi meiðsl hafi verið að ígerast hjá Helga undanfarið ár eða svo og látið endanlega undan á mánudaginn.
Helgi segir þrennt í stöðunni núna: að halda áfram að æfa og sjá hvernig fóturinn bregst við ákveðnum hreyfingum og álagi undir eftirliti sjúkraþjálfara, sérhæfð sjúkraþjálfun til þess að styrkja vöðvana í kring um sinina og að lokum fara í aðgerð og sauma sinina við aðra sin sem kallast brevis því ekki er hægt að sauma hana saman aftur.
"Planið er að hvíla núna næstu daga og láta svo reyna á þetta í næstu viku. Við metum svo hvernig fóturinn bregst við og aukum þá kannski á þjálfunina í kjölfarið," sagði Helgi um framhaldið. Ef allt þrýtur hins vegar er uppskurður næstur á dagskrá. "Ég á eftir að setjast niður með bæklunarlækni og ræða alla þessa möguleika í þaula og hvað þeir myndu hafa í för með sér en það eru allir sammála um að þetta versni ekkert þó ég láti reyna á þetta."
Aðspurður um hvaða áhrif þetta hafi á þátttöku hans á EM í september sagði Helgi að ekkert væri útilokað enn. Aftur á móti þýðir þetta að hann verður mikið frá æfingum núna þegar landsliðshópurinn er að fara á fullt í undirbúning fyrir Evrópumótið. "Það er ekkert útilokað en útlitið er ekki gott."
"Þetta er ógeðslega svekkjandi. Búinn að spila um 15 ár í meistaraflokki og aldrei verið frá að neinu ráði vegna meiðsla. Held ég hafi verið frá í samtals 10 leiki í heildina," bætti Helgi við. "Svo gerist þetta núna akkúrat þegar maður er að fara að upplifa einn stærsta drauminn á ferlinum. Bara ömurleg upplifun." Helgi segist hafa verið ansi þungur undanfarna daga og rétt núna að geta talað um þetta af einhverju ráði. "Nú er bara að setja hausinn á undan sér og keyra í þetta. Það er fólk þarna úti að fást við erfiðari hluti en þetta."
Að lokum bætti Helgi því við að þó hann verði fær um að spila í september muni fjarvera hans á æfingum í undirbúningnum fyrir móti eflaust vega eitthvað. "Þetta fer allt eftir því hvernig þjálfararnir vilja snúa sér í þessu."
Helgi er búinn að vera í fantaformi fram að þessu og til að mynda var hann stigahæstur KR-inga á síðustu leiktíð með 15,1 stig í leik. Þar að auki var hann næstfrákastahæstur á eftir Pavel Ermolinskij með 5,7 í leik. Það munar því um minna að missa "Tjakkinn" úr landsliðinu auk þess sem hann er mikill og góður leiðtogi í sínu liði.