spot_img
HomeFréttirHelga: Við viljum vinna og þess vegna hef ég áhyggjur

Helga: Við viljum vinna og þess vegna hef ég áhyggjur

,,Ég held að við verðum fyrst og fremst að athuga hvað sé að gerast í hausnum á okkur,“ sagði Helga Einarsdóttir annar tveggja fyrirliða KR í samtali við Karfan.is í kvöld. KR tapaði þá sínum þriðja leik í röð í Iceland Express deildinni þegar Njarðvíkurkonur komu í heimsókn.
,,Við höfum verið að byrja þessa þrjá síðustu leiki mjög illa og við erum ekki að spila á meira en 60-70% getu og mér finnst þetta vera andlegur þáttur sem við þurfum að skoða og laga,“ sagði Helga en KR liðið lék fantavel fyrstu fimm umferðir deildarinnar.
 
,,Auðvitað er mjög erfitt að fara í gegnum heilt mót á 120% hraða og vinna alla leiki, það er bara mjög erfitt. Við erum samt með það góða leikmenn og við eigum að vera það góðar að við komum tilbúnar í leiki enda með reynslumikið lið þó við séum að koma saman úr mörgum áttum,“ sagði Helga en mikið mæðir á byrjunarliði KR. Þurfa aðrir leikmenn að stíga betur upp hjá liðinu?
 
,,Galdurinn felst í því að tengja fleiri inn í verkefnið enda er mótið langt og bikarinn eftir þannig að við þurfum að setjast niður, athuga hvað sé að og laga það,“ sagði Helga en er þetta mikið áhyggjuefni, þessir þrír tapleikir í röð?
 
,,Já auðvitað, þetta er samt eitthvað sem vel er hægt að laga en það er aldrei gott að tapa svona mörgum leikjum í röð. Við viljum vinna og þess vegna hef ég áhyggjur.“
 
 
  
Fréttir
- Auglýsing -