Risafregnir í Dominos deild kvenna bárust rétt í þessu en tólfföld körfuknattleikskona Íslands hefur ákveðið að söðla um og leika með uppeldisfélagi sínu.
Helena varð Íslandsmeistari með Val á dögunum er hún var leikmaður og spilandi aðstoðarþjálfari liðsins sem vann einmitt Hauka í úrslitaeinvíginu. Hún var valin leikmaður úrslitakeppninnar í ár en hún hefur nú unnið tvo Íslandsmeistaratitla með Val en hún söðlaði um og gekk til liðs við félagið fyrir þremur árum.
Samningur Helenu við Hauka er til tveggja ára en ljóst er að lið Hafnfirðinga ætla sér stóra hluti í vetur en í liðinu hittir Helenu fyrir körfuknattleikskonu ársins 2020, Sara Rún Hinriksdóttir. Liðið var gríðarlega öflugt í vetur og komst alla leið í úrslitaeinvígið þar sem þeim var sópað af Helenu og félögum í Val.
Tilkynningu Hauka má sjá hér að neðan:
Körfuknattleiksdeild Hauka og Helena Sverrisdóttir hafa komist að samkomulagi um að Helena spili með Haukaliðinu í úrvalsdeild kvenna á næsta tímabili og er samningur Helenu við Hauka til tveggja ára.
Helenu þarf varla að kynna fyrir Haukamönnum en hún hefur unnið allt sem hægt er að vinna með félaginu og í raun hvergi annarsstaðar spilað hér á landi fyrir utan tíman sem hún var í Val. Helena fór frá því að spila upp alla yngri flokka Hauka til TCU í Bandaríkjunum og flakkaði svo um Evrópu sem atvinnumaður þangað til hún kom aftur til Hauka. Aftur hélt Helena út og um mitt tímabil 2018-2019 snéri hún heim og gekk þá til liðs við Val.
Helena skilaði flottum tölum á síðasta tímabili þrátt fyrir að vera í barneignafríi lungað af því en hún var með 13.5 stig, 9.6 fráköst og 4.8 stoðsendingar í 24 leikjum.
Aðspurð sagðist Helena vera spent fyrir því að koma aftur til Hauka. “Ég er ótrúlega spennt að vera komin aftur heim. Það er frábær umgjörð og gott fólk í kringum klúbbinn og ég hlakka til að vera komin inní Haukafjölskylduna aftur.”
Haukar bjóða Helenu hjartanlega velkomna heim í Hauka.