spot_img
HomeFréttirHelena slóvaskur meistari

Helena slóvaskur meistari

Helena Sverrisdóttir og Good Angels Kosice urðu í dag slóvaskir meistarar í 10 skipti en liðið sigraði MBK Ruzomberok 80:63 í hreinum úrslitaleik. Samanlagt sigruðu Good Angels einvígið 3-2 en liðið sigraði alla sína leiki á heimavelli.
 
 
Helena skoraði aðeins eitt stig í leiknum en þetta er í annað skipti sem hún verður meistari í Slóvakíu en Good Angels sigraði einnig í fyrra. Tímabilið hjá Good Angels hefur verið afar gott en þær sigruðu alla sína leiki í deildinni og fóru í undanúrslit Meistaradeildarinnar.

Helena sagði í samtali við karfan.is að það væri alltaf jafn sætt að vinna og sér í lagi núna þar sem að samkeppnin var meiri í ár en í fyrra.

 
„Já þetta er alltaf ótrúlega gaman. Við gerðum þetta aðeins erfiðara í ár og fórum í fimm leiki þannig að þetta var extra sweet.“
 
Helena sagði aðspurð hvort hún hefði ekki tekið fullan þátt í leiknum að hún hafi spilað alveg slatta og að hún væri að skiptast á að spila þrist eða fjarka: „Ég fékk ekki mikið að skotum í dag og einbeitti mér því frekar að vörninni og að finna þá leikmenn sem voru heitar.“
 
Helena var úti að borða með leikmönnum, þjálfurum og stuðningsmönnum þegar við trufluðum hana og liðið ætlar að fagna áfanganum í kvöld. Þær geta þó ekki fagnað lengi því það er leikur hjá liðinu strax á föstudaginn og verður það því að bíða betri tíma.
 

 
Myndir/ basket.sk og Helena Sverrisdóttir
 
Fréttir
- Auglýsing -