TCU mætti SMU háskólanum í bandaríska háskólaboltanum í gær og fór leikurinn fram í Dallas í Texasfylki Bandaríkjanna. TCU hafði öruggan 84-66 sigur í leiknum þar sem Helena Sverrisdóttir gerði 18 stig og tók 12 fráköst í liði TCU.
Helena var í byrjunarliðinu og lék í 35 mínútur í leiknum og var auk þess með 5 stoðsendingar, 2 stolna bolta og 2 varin skot.
Fyrir viðureign liðanna í gær hafði TCU tapað síðustu tveimur viðureignum sínum gegn SMU. Þá var Helena með sína þriðju tvennu á tímabilinu og eru þær alls orðnar 13 talsins á þeim þremur tímabilum sem hún hefur leikið með TCU.