Fjörið hefst í nótt hjá Helenu Sverrisdóttur og félögum í bandaríska háskólaliðinu TCU. Mikið er horft til Helenu að leiða liðið áfram þennan veturinn enda hún á lokaári sínu við skólann og hefur þegar skráð sig á spjöld sögunnar hjá TCU. Karfan.is hitti stuttlega á Helenu sem fer fyrir TCU í nótt þegar liðið mætir Houston Baptist skólanum.
Eruð þið löngu tilbúnar í slaginn, ekkert of tilbúnar er það?
Já við erum sko algjörlega tilbúnar í þetta, búið að vera langt og strembið pre-season þannig að það verður rosa gaman að fara í búning og spila alvöru leik. Ég ætla allavega rétt að vona að við séum ekki of tilbúnar, við erum búnar að undirbúa okkur vel, núna er bara kominn tími til að sanna okkur.
Síðasta árið þitt í skólanum að hefjast, hvað finnst þér þú eiga eftir að afreka hjá TCU?
Það er svo margt! Kannski ekki endilega einhver ákveðnir hlutir, heldur er maður búin að bindast TCU fyrir lífstíð á þessum árum hér og manni langar að gera allt til þess að vinna sem flesta leiki. Við höfum ekki komist langt í NCAA t.d og stefnan er sett á að ná mun lengra í ár, og það byrjar allt núna því hver leikur er gríðarlega mikilvægur.
Houston Baptist eru andstæðingarnir í kvöld, hvernig eru þær þetta tímabilið?
Þær eru frekar neðarlega í D-1, þeim er spáð 7. sæti í Great West deildinni (þar sem Maja spilar). En við vitum að það skiptir miklu máli að við spilum okkar leik og það er mikil eftirvænting í kringum liðið og við ætlum að sýna hvað við höfum lagt mikla vinnu í þetta undanfarna 3 mánuði.