Óhætt er að segja að Helena Sverrisdóttir hafi látið rækilega til sín taka vestur í Bandaríkjunum síðustu ár. Hvert metið á fætur öðru og hver heiðursnefningin eltir aðra. Nú hefur risinn ESPN útnefnt Helenu sem einn af fimm bestu litlu framherjum þjóðarinnar! Með henni á þessum topp fimm lista eru m.a. leikmenn frá UCONN, Delaware, Stanford og Tennessee.
Allra augu eru á Helenu um þessar mundir en hún hefur fyrir nokkru skipað sér einstakan sess í skólasögu TCU. Fyrir skemmstu var Helena einn af 50 leikmönnum sem sett var á Naismith Trophy ,,watch list” en það munu vera leikmenn sem skara framúr og koma til greina sem viðtakendur Naysmith Trophy verðlaunanna.
Þá er Helena einnig á ,,wathc list” fyrir John R. Wooden verðlaunin og svona mætti lengi telja um þessa mögnuðu körfuboltakonu. Helena er núverandi besti leikmaður Mountain West riðilsins og opnaði á föstudag tímabilið með TCU þar sem hún skoraði 15 stig, tók 6 fráköst og gaf 5 stoðsendingar í stórsigri TCU gegn Houston Baptist.
Það verður því magnað að fylgjast með Helenu á lokaári sínu í bandaríska háskólanum TCU en liðið ætlar sér stóra hluti þetta tímabilið.