Njarðvíkingurinn Helena Rafnsdóttir gekk síðastliðið haust til liðs við North Florida Ospreys í bandaríska háskólaboltanum eftir gott tímabil með grænum í Subway deild kvenna, þar sem hún meðal annars var lykilleikmaður liðsins í fyrsta Íslandsmeistaratitil þeirra í tíu ár. Í 33 leikjum með Íslandsmeisturum Njarðvíkur á 2021-22 tímabilinu lék hún að meðaltali tæpa 21 mínútu í leik og átti einn sinn besta leik á tímabilinu þegar að liðið tryggði sér titilinn í oddaleik gegn Haukum í Ólafssal.
Helena verður tvítug í desember, en eftir að hafa leikið upp alla yngri flokka Njarðvíkur hóf hún að leika með meistaraflokki þeirra aðeins 15 ára gömul tímabilið 2018-19. Þá hefur hún einnig verið mikilvægur hluti í öllum yngri landsliðum Íslands og var á síðasta ári komin í a landsliðið, þar sem hún hefur leikið tvo leiki.
North Florida Ospreys eru staðsettar í Jacksonville í Flórída ríki Bandaríkjanna og leika í fyrstu deild bandaríska háskólaboltans, nánar tiltekið í ASUN deildinni. Fyrsta tímabili Helenu með skólanum er nú lokið og vann liðið 7 leiki en tapaði 20. Þá náði hún strax á fyrsta ári sínu að spila nokkuð stórt hlutverk innan liðsins, þar sem hún lék tæpar 20 mínútur að meðaltali í leik.
Karfan hafði samband við Helenu og spurði hana aðeins út í þetta fyrsta ár með North Florida, hvernig stemningin sé í Jacksonville og hvað hún hyggist gera í framhaldinu.
Hvernig er að vera kominn af stað í bandaríska háskólaboltanum?
“Það er mjög gaman að vera komin af stað hérna úti en á sama tíma krefjandi. Mikið nýtt og margar breytingar, sem ég vandist fljótt. En bara geggjað að vera komin í þær aðstæður sem skólinn býður uppá.”
Hvernig er stemningin í Jacksonville?
“Stemningin er mjög góð hérna. Það er mikill munur á Jacksonville og Njarðvík. Jacksonville er mjög stór borg og mikið um að vera. Skólinn minn er staðsettur rétt fyrir utan miðborgina og er um 15 mínútum frá ströndinni. Svo er veðrið mjög gott hérna sem er stór plús.”
Er körfuboltinn ólíkur því sem þú hafðir vanist hérna heima?
“Já hann er mjög ólíkur. Leikurinn hér er mun hraðari og fleiri athletic leikmenn en minni snerting leyfð hér en heima. Undirbúningur fyrir leiki er meiri, t.d. fengum við nokkra blaðsíðna scouting report fyrir hvern leik sem innihélt upplýsingar um leikmenn og allt um þeirra leik sem lið. Æfingaplanið hér er mjög ólíkt því sem ég er vön heima. Æfingar eru miklu lengri, mun meiri hlaup, meiri agi og reglur og farið meira í smáatriði. Þjálfarateymið hérna er stærra og því meira aðgengi að þeim til að fá einstaklings video fundi eða aukaæfingu. Einnig hafa allir leikmenn aðgengi að íþróttahúsinu allan sólarhringinn svo maður er alltaf þar. Aðstaðan hérna býður uppá mun fleiri möguleika til að bæta sig.”
Nú ferðu út eftir að hafa verið lykilleikmaður í Íslandsmeistaraliði Njarðvíkur, var ekkert erfitt að fara út og bæði treysta á að þú næðir að halda áfram að bæta þig, sem og fá ekki tækifæri til að verja titilinn?
“Það hefði auðvitað hefði verið gaman að taka eitt ár í viðbót, til að reyna verja titilinn. En ég var tilbúin að fara út og vildi breytingu. Ég vissi hvaða umhverfi ég væri að koma í og hversu mörg tækifæri prógammið myndi bjóða mér uppá til að vaxa sem leikmaður.”
Fylgist væntanlega vel með Subway deildinni þarna úti, hvernig líst þér á hvernig tímabilið hefur þróast fyrir Íslandsmeistarana?
“Ég reyni að fylgjast eins vel með og ég get. Liðið hefur verið á uppleið í síðustu leikjum og spennandi sería framundan á móti Keflavík. Ég hef fulla trú á að þær fari alla leið og verji titilinn!”
Verður þú áfram úti á næsta tímabili, eða hvert er förinni heitið eftir þetta?
“Já, ég verð áfram í UNF á næsta tímabili.”
Hvernig hefur þér gengið á tímabilinu?
“Mér gekk vel, ég fékk helling af mínútum og hlutverkið mitt stækkaði eftir því sem leið á tímabilið. Ég byrjaði 1/3 af leikjum tímabilsins. Ég bætti mig á öllum sviðum leiksins í gegnum tímabilið og stefni á að halda áfram að bæta mig í post-season.”
Hver eru markmið þín fyrir næsta tímabil?
“Markmiðið er alltaf að byggja ofan á minn leik og gera enn betur á komandi tímabili. Ég á eftir að setjast niður sjálf og með þjálfarateyminu til að setja mér nánari markmið.”