Bakvörðurinn Hekla Eik Nökkvadóttir hefur framlengt samningi sínum við Grindavík fyrir næstu tvö tímabil í Subway deild kvenna. Staðfestir félagið þetta á samfélagsmiðlum.
Þorleifur Ólafsson, þjálfari meistaraflokks kvenna, var að vonum sáttur með þetta skref og sparaði ekki stóru orðin: „Hekla er einn efnilegasti leikmaður Íslands sem á framtíðina fyrir sér. Það var forgangsmál hjá mér að halda henni til að geta tekið næsta skref með liðið.“
Hekla, sem fædd er árið 2004 og því ekki orðin tvítug, hefur þrátt fyrir ungan aldur verið ein af máttarstólpum liðs Grindavíkur undanfarin þrjú tímabil. Tímabilið 2020-21 var hún valin besti ungi leikmaðurinn í 1. deild og jafnframt valin í lið ársins í deildinni.