Heimir Gamalíel Helgason er að koma sér fyrir í Bandaríkjunum þar sem hann stundar nám og leikur körfubolta með miðskólanum (High School) Asheville í Norður Karólínu fylki. Heimir stóð í ströngu í sumar með U16 liði Íslands en hann lauk grunnskóla fyrr á þessu ári og hefur um nokkurt skeið haft það markmið að koma sér erlendis með körfuboltann sinn. Við höfðum samband vestur um haf og báðum Heimi um að leyfa okkur að skyggnast aðeins inn heim sinn sem hann er að kynnast betur og betur á hverjum degi.
Skólinn sem ég er í heitir Ashville School og er í North Carolina, þetta er heimavistarskóli og það eru um 300 krakkar í skólanum og flestir búa á heimavistinni en einhverjir búa heima hjá foreldrum sínum og fara heim þegar skólinn er búinn. Flestir kennarar og þjálfarar búa á campus (skólavistinni).
Hefðbundinn dagur hjá mér er að ég byrja á því að fara í morgunmat kl 7:30, eftir hann fer ég að græja mig fyrir skólann, ég þarf að vera snyrtilegur til fara, það er ákveðið „dress code“ sem þýðir að ég þarf að vera í spariskóm, fínum buxum, skyrtu og með bindi, suma daga megum við vera í stuttbuxum og pólóbol.
Skóli byrjar svo kl 8:30 og búinn kl 14:45. Eftir skóla fer ég yfirleitt að lyfta og á æfingu, við lyftum 4 sinnum í viku og það er sér lyftingaþjálfari sem sér um æfingarnar. Eftir æfingu er kvöldmatur og svo er Study Hall frá 20-22 þar sem ég geri heimavinnuna. Það eru margar íþróttir æfðar í skólanum og þegar ég er ekki á æfingu þá fer ég stundum að horfa á leiki eða fara í æfingasalinn að skjóta eða taka aukaæfingu með einhverjum af þjálfurunum.
Við erum með fínt lið, þjálfarinn er á sínu fyrsta ári í skólanum en hann er búinn að þjálfa í mörg ár, það eru tveir Serbar, tveir Tyrkir og Ítali í liðinu. Tímabilið byrjar ekki fyrr en í nóvember þannig að það eru stífar æfingar fram að því.
Ég er búinn koma mér ágætlega fyrir og hægt og rólega að ná að átta mig á hlutunum hér. Fyrstu dagarnir voru mjög erfiðir en ég fékk góðan stuðning frá þjálfurunum og fólkinu hér.