spot_img
HomeFréttirHeimavígið virkaði með minnsta mun

Heimavígið virkaði með minnsta mun

Það var hörkueinvígi sem byrjaði á hörkuleik í Stykkishólmi þar sem Snæfell sigraði á heimavelli með minnsta mun, 91-90 og það var heldur betur flugeldasýning í stóru skotunum hjá báðum liðum. Jón Ólafur Jónsson skoraði 29 stig fyrir Snæfell og Jay Threatt 25 stig en þeir settu fimm þrista hvor. Í liði Stjörnunnar var Jarrid Frye með 23 stig en Justin Shouse skoraði 22 stig og þar af fimm þrista. Snæfell leiðir nú einvígið 1-0 en liðin mætast aftur í Garðabæ föstudaginn 5. apríl í leik tvö.
 
Pálmi Freyr opnaði leikinn á þremur og liðin byrjuðu jafnt með 8-6 þegar Jarrid Frye skellti góðri troðslu. Snæfell setti niður 4 af 4 þristum og komust í 14-6 nokkuð hressir. Stjörnumenn voru þó ekki af baki dottnir þrátt fyrir stórskot Snæfells og komust yfir 16-20. Hafþór Gunnarsson kom Snæfelli yfir aftur 26-25 af vítalínunni og ljóst að stefnt var stál í stál. Staðan eftir fyrsta hluta var 30-30.
 
Menn máttu ekki líta af Jovan Zdravevski því hann setti niður þrista ef hann fékk leyfi en Hafþór Gunnarsson gerði það hinu megin hjá Snæfelli. Leikurinn varð aldrei kaflaskiptur þar sem liðin skiptust á að skora og voru oft jöfn á töflunni. Jay Threatt var að spila mjög vel fyrir Snæfell á móti Jarrid Frye og Brian Mills hjá Stjörnunni og staðan 46-46. Stjarnan náði að setja nokkkur stopp undir lokin á öðrum hluta og leiddu í hálfleik 48-56 en einn baneitraður þristur kom í lokin úr höndum Jovans, hann átti þá fjóra í leiknum.
 
Stigahæstur hjá Snæfeli í hálfleik var Jay Threatt með 15 stig en Ryan og Jón Ólafur komnir með 9 stig hvor. Hjá Stjörnunni var Jarrid Frye kominn með 14 stig og Jovan Zdravevski 12 stig og Brian Mills 11 stig. Forystan hafði breyst 11 sinnum og jafnt hafði verið 9 sinnum í fyrri hálfleik.
 
Stjörnumenn byrjuðu á þremur frá Brian Mills og hófu seinni hálfleikinn 48-59. Ryan Amoroso var ekki sáttur við stöðu mála og ásamt Jóni Ólafi og Jay Threatt splæstu þeir í fantavörn, skelltu sér í skotgírinn og komust yfir 63-61 eftir frábærann 10-0 kafla. Stjörnumenn söfnuðu einungis villum á meðan og voru ráðvilltir og Jovan var kominn í villuvandræði með fjórar villur um miðjan þriðja hluta. Ryan Amoroso setti stemmingu í húsið með hrikalegri troðslu og Snæfell leiddi 75-72 eftir þriðja hluta.
 
Helsti munurinn var oft að Snæfell var sterkara í fráköstum en engin sóknarfráköst höfðu litið dagsins ljós hjá Stjörnunni. Stjarnan jafnaði 75-75 og um tíma voru liðin hlaupandi fram og til baka fyrir ekkert. Jón Ólafur a.k.a. Nonni Mæju átti tvo þrista og skaut Snæfelli í forystu 83-77. Justin Shouse kom Stjörnunni yfir 83-84 en Jay Threatt svaraði 86-84 og skotsýning í Hólminum þar sem 24 þristar voru dottnir í hús af 56 reyndum og liðin bæði að gæla við 42% – 45% nýtingu sem er allt í lagi.
 
Spennan var í hámarki og þegaar tvær mínútur voru eftir var staðan 88-86 fyrir Snæfell. Justin setti einn sjóðandi 88-89 þegar 50 sekúndur lifði og Nonni Mæju svaraði strax 91-89. Justin fór á línuna 91-90 og Snæfell hélt í sókn og klikkaði en Jay tók boltan af Jarrid Frye í síðstu sókn þeirra og síðustu 3-4 sekúndur leiksins runnu út og Snæfell leiðir 1-0 etfir 91-90 sigur og stefnir í rooooosalega rimmu.
 
 
 
Byrjunarliðin.
Snæfell: Pálmi Freyr, Jón Ólafur, Jay Threatt, Ryan Amoroso, Sigurður Þorvaldsson.
Stjarnan: Jarrid Frye, Justin Shouse, Brian Mills, Fannar Freyr, Marvin Valdimarsson.
 
Dómarar: Kristinn Óskarsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Einar Þór Skarphéðinsson.
 
Umfjöllun/ Símon B Hjaltalín
  
Fréttir
- Auglýsing -