Þór Þorlákshöfn tók á móti liði Tindastóls í Icelandic Glacial höllinni í kvöld. Þórsarar voru fyrir leikinn í 6. sæti í deildinni en lið gestanna á toppnum eftir aðeins einn tapleik fyrir áramót. Heimamenn áttu ekki auðveldan leik fyrir höndum þar sem Urald King er kominn aftur til landsins og Axel Kárason einnig mættur í vínrauða búninginn á ný. Tindastóll lék þó án leikstjórnandans Péturs Rúnars sem sat á bekknum í borgaralegum klæðum.
Fjölmenni var í húsinu og spennustigið töluvert en liðin virtust koma vel stillt til leiks. Leikurinn fór jafn af stað og greinilegt að bæði lið voru vel undirbúin eftir jólafrí. Undir miðjan 1. leikhluta slitu Þórsarar sig frá gestunum og sigu fram úr á meðan lítið gekk í sókninni hjá Tindastóli.
Munurinn á liðunum varð þó aldrei meiri en 6 stig en það voru gestirnir sem höfðu yfirhöndina í 2. leikhluta. Þórsarar nýttu ekki skotin sín og stemningin færðist öll yfir til Tindastóls. Brasið á heimamönnum náði hápunkti þegar dómarar leiksins dæmdu villu á Halldór Garðar og gáfu honum tæknivillu nær samstundis. Þórsliðið gerði þó vel að halda haus og missa ekki gestina of langt frá sér. Leikhlutinn var engu að síður eign Tindastóls og voru þeir með 2 stiga forskot í hálfleik.
Snemma í 3. leikhlutanum sneri Urald King sig á ökkla og sat hann á bekk Tindastóls restina af leiknum. Á hinum endanum var Kinu Rochford hálf haltrandi og töluvert dró af honum. Leikhlutinn var samt sá jafnasti í leiknum og stefndi í hörku 4. leikhluta.
Loka leikhlutinn var erfiður hjá gestunum sem voru þá án Urald King og misstu bæði Danero Thomas og Viðar Ágústsson útaf með 5 villur. Það var töluvert farið að þynnast í hópnum á meðan Þórsarar héldu öllum sínum mönnum í leik allan leikinn. Þótt skemmtanagildið hafi verið mikið þá var körfuboltinn ekki sá fallegasti. Að lokum voru það Þórsarar sem áttu meira inni á lokamínútunum og það verður að gefa þeim að þetta var hörku sannfærandi sigur á toppliðinu, 98-90.