ÍR og Hamar mættust í gær í Kennaraháskólanum og voru það ÍR-ingar sem byrjuðu af miklum krafti. Steinar Arason, Nemanja Sovic og Davíð Fritzson mættu sterkir til leiks og eftir 6 mínútur var staðan orðin 19-6 fyrir ÍR og Steinar búin að setja tvo þrista á stuttum tíma. Stuttu seinna skiptu Hamarsmenn yfir í svæði í von um að minnka muninn en það gekk lítið og í lok leikhlutans var staðan 24-15.
Hamarsmenn börðust áfram í 2.leikhluta og reyndu að minnka muninn en ÍR-ingar voru alltaf skrefi á undan og juku muninn hægt og rólega og þegar flautað var til hálfleiks var staðan orðin 47-32. Aðeins 15 stiga munur en ÍR-ingar virkuðu með öll völd á vellinum og var eins og eina markmið Hamarsmanna væri að tapa ekki of stórt.
Eftir daufan fyrri hálfleik þar sem ÍR-ingar fóru létt með að skora í gegnum lélega svæðisvörn Hamars, þá mættu Hamarsmenn vel tilbúnir í seinni hálfleik. Byrjuðu þeir leikhlutann á sterkri maður á mann vörn og á stuttum tíma tókst þeim að minnka muninn niður í 54-44 en þá hafði Oddur Ólafsson skorað glæsilega körfu er hann stökk upp í skot, hálfpartinn á bak við spjaldið, en tókst á ótrúlegan hátt að skora. Hamarsmenn halda áfram að sækja og Andre Dabney stelur boltanum og skorar svo góða körfu og allt í einu var munurinn kominn niður í 8 stig og öll stemning á vellinum með Hamarsmönnum. Þjálfari ÍR-inga skipti þá Vilhjálmi Steinarssyni og Kristni Jónassyni inn á og stuttu eftir það tóku ÍR-ingar öll völd á vellinum með Nemanja Sovic og Kristinn Jónasson fremsta í flokki og skoruðu ÍR-ingar 15 stig á móti 5 hjá Hamar og staðan orðin 69-49 þegar 3ja leikhluta lauk.
4.leikhluti var formsatriði fyrir ÍR-inga og líklega það eina markverða úr 4.leikhluta var þegar Vilhjálmur Steinarsson reyndi 2x að gefa á Kristinn Jónasson í viðstöðulausa troðslu en það mistókst í bæði skiptinn og þjálfari ÍR-inga var vægt til orða tekið ósáttur yfir þessari sýningu í staðinn fyrir að fá góða körfu og skipti Vilhjálmi fljótlega útaf. Leiknum lauk síðan með 26 stiga sigri ÍR-ing, 95-69.
Nemanja Sovic var mjög góður í liði ÍR-inga, sérstaklega á þeim tíma þegar Hamarsmenn voru að reyna að vinna sig inn í leikinn og endaði hann með 33 stig, 12 fráköst og 5 stoðsendingar. Steinar Arason (18 stig), Ólafur Þórisson (17 stig) og Davíð Fritzson (9 stig, 7 fráköst og 7 stoðsendingar) áttu einnig allir góðan leik.
Hjá Hamar var Andre Dabney yfirburða maður með 27 stig, 7 fiskaðar villur, 6 fráköst og 5 stoðendingar. Svavar Páll Pálsson átti einnig góðan leik með 15 stig og 11 fráköst auk þess sem Oddur Ólafsson átti góða spretti með 11 stig og 5 stoðsendingar. Eitthvað fór lítið fyrir Marvin Valdimarssyni í þessum leik en hann skoraði aðeins 9 stig og var með 4/14 í tveggja stiga og 0/3 í þriggja stiga.
Umfjöllun: Bryndís Gunnlaugsdóttir