spot_img
HomeFréttirHeimasigur í Grindavík eftir æsispennandi botnslag

Heimasigur í Grindavík eftir æsispennandi botnslag

Grindavík tók á móti ÍR í Mustad höllinni í kvöld í hörkuleik. Fyrir leikinn voru liðin jöfn að stigum, bæði með 5 sigra í pokanum, og því mikið í húfi fyrir bæði lið, að slíta sig frá botnbaráttunni sem og að koma öðrum fætinum í baráttuna um sæti í úrslitakeppninni.

 

Leikurinn fór hressilega af stað, en Charles Wayne Garcia Jr, aka Chuck Garcia, aka Chucksterinn, aka Mr. Cintamani, opnaði leikinn á troðslu eftir lauflétta leikfléttu Grindvíkinga. Grindvíkingar voru töluvert að leita að Garcia og augljóslega að vinna að því hörðum höndum að koma honum fyllilega inní flæðið í sóknarleiknum. Það gekk svona upp og ofan framan af en Garcia óx ásmeginn eftir því sem leið á leikinn og skilaði sínu og rúmlega það. Kunnugir segja að hann sé aðeins í ca 40% leikformi en það er greinilegt að þarna er á ferðinni hörku leikmaður með mikinn leikskilning, sem er þar fyrir utan stór og sterkur og lentu ÍR-ingar t.a.m. oftar en einu sinni í basli með að stíga hann út í vítum.

 

Grindvíkingar kláruðu 1. leikhlutann með krafti og leiddu 25-18. Hlutur Jóns Axels Guðmundssonar var ansi drjúgur fyrstu 10 mínúturnar en hann var með 15 stig og 3/3 í þristum.  Grindvíkingar voru skrefinu á undan allan fyrri hálfleikinn en þó ekki lengra frá en svo að ÍR-ingarnir voru alltaf rétt við hælana á þeim. Heimamenn söknuðu tveggja lykilmanna í leiknum, en þeir Hilmir Kristjánsson og Páll Axel Vilbergsson eru báðir frá vegna meiðsla. Þá gat Jóhann Árni lítið beitt sér í fyrri hálfleik en hann var kominn með 3 villur eftir nokkrar mínútur. Leikurinn var raunar nokkuð fast leikinn og mesta furða að enginn leikmaður ÍR hafi fengið 5 villur, en fimm leikmenn þeirra voru með fjórar villur í lok leiks. 

 

Staðan í hálfleik var 46-37 heimamönnum í vil sem lokuðu leiknum af miklum krafti í vörn og sókn. Ómar var útum allt varnarmegin og Jón Axel og Garcia sölluðu niður sóknarmegin. En Grindavík náði ekki að fylgja þessari spilamennsku eftir í 3. leikhluta þar sem ýmislegt gekk á afturfótunum meðan að flest gekk upp hjá gestunum. Björgvin Hafþór Ríkharðsson kveikti í stuðningsmönnum gestanna, sem voru bæði margir og háværir, með stolnum bolta og troðslu. ÍR unnu leikhlutann og komust yfir en Grindvíkingar lögðu þó ekki árar í bát.

 

Heimamenn hefðu að ósekju mátt keyra meira inn í teiginn þar sem að ÍR-ingar voru í raun í bullandi villuvandræðum en náðu einhvern veginn að sleppa alfarið með skrekkinn og allir héngu inni. Þristarnir voru ekki að detta í kvöld hjá Grindavík en tveir góðir þristar undir lokin frá Jóni Axel og Daníel Guðna breyttu stöðunni úr 73-71 í 79-73 og 4 mínútur eftir. ÍR-ingar voru þó hvergi nærri hættir. Jonathan Mitchell fór mikinn í sókninni og á sama tíma klikkuðu Ómar og Garcia úr 2 vítum hvor. 

 

Lokasekúndurnar voru æsispennandi og bæði lið fengu færi á að klára leikinn. Jón Axel kom Grindavík 4 stigum yfir en Sveinbjörn svaraði um hæl. Garcia kláraði svo leikinn á vítalínunni og setti bæði en Sveinbjörn gerði 4 tilraunir til að skora síðustu sekúndurnar sem fóru allar forgörðum. Lokatölur 86-82 og Grindvíkingar skrefi nær úrslitakeppninni. ÍR-ingar hljóta að vera svekktir með þetta tap en þeir voru mjög sprækir í þessum leik. Mitchell var stigahæstur allra á vellinum með 31 stig og tók 11 fráköst og þá átti áðurnefndur Björgvin Ríkharðsson flotta spretti og endaði leikinn með 14 stig. Vilhjálmur Jónsson var einnig drjúgur og setti 17 stig.
Hjá Grindavík voru það þrír leikmenn sem drógu vagninn. Jón Axel átti mjög góðan leik, skoraði 28 stig og tók 8 fráköst. Chuck Garcia kom næstur með 27 stig og 15 fráköst og þá var Ómar með 13 stig og 17 fráköst og ódrepandi baráttu allan tímann.

 

Það kemur margt áhugavert í ljós ef rýnt er í tölfræði leiksins. Grindavík tók t.d. 53 fráköst gegn 41 frákasti ÍR, og þar af tóku Ómar og Garcia 32 stykki og Ómar tók fleiri sóknarfráköst en varnar.

 

ÍR-ingar voru nokkuð grófir í leiknum og fengu á sig 25 villur gegn 15, en enginn fór útaf með 5 villur.

 

Grindvíkingar fóru 32 sinnum á vítalínuna en ÍR-ingar aðeins 7 sinnum. Grindavík nýtti þó aðeins 21 af þessum vítum, sem gerir 66% nýtingu. Chuck Garcia tók 18 af þessum vítum, og hefði sennilega átt að taka nokkur í viðbót.

 

Kristján Andrésson leikmaður ÍR var með mjög opið skotleyfi í kvöld en hann tók 7 þrista í kvöld en aðeins tveir þeirra rötuðu ofan í. Tölfræði yfir knattrak er ekki skráð en hann dripplaði boltanum um það bil tvisvar í leiknum.

 

Garcia varði 4 skot í leiknum í kvöld, flest þeirra með tilþrifum. Það verður áhugavert að fylgjast með honum þegar fæturnir koma frá Ameríku.

 

Texti og mynd:  Siggeir Ævarsson

 

Grindavík-ÍR 86-82 (25-18, 21-19, 17-25, 23-20)
Grindavík: Jón Axel Guðmundsson 28/8 fráköst, Charles Wayne Garcia Jr. 27/15 fráköst/4 varin skot, Ómar Örn Sævarsson 13/17 fráköst, Þorleifur Ólafsson 10, Daníel Guðni Guðmundsson 3, Ingvi Þór Guðmundsson 3, Þorsteinn Finnbogason 2, Kristófer Breki Gylfason 0, Magnús Már Ellertsson 0, Jens Valgeir Óskarsson 0, Jóhann Árni Ólafsson 0/4 fráköst, Hinrik Guðbjartsson 0.
ÍR: Jonathan Mitchell 31/11 fráköst, Vilhjálmur Theodór Jónsson 17, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 14/6 fráköst, Sveinbjörn Claessen 9/5 stoðsendingar, Kristján Pétur Andrésson 6, Trausti Eiríksson 3/5 fráköst, Daði Berg Grétarsson 2, Eyjólfur Ásberg Halldórsson 0, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 0, Hákon Örn Hjálmarsson 0, Haraldur Bjarni Davíðsson 0, Sæþór Elmar Kristjánsson 0.

Fréttir
- Auglýsing -