1.deildarlið Selfoss í karlaflokki heimsótti granna sína í Hrunamannahreppi í kvöld. Liðin hafa mæst tvisvar áður á leiktíðinni og hefur heimaliðið haft sigur í bæði skiptin. Í upphafi leiks tókst liðunum að búa sér til opin skot en þau rötuðu fæst réttu leiðina. Eftir fyrsta fjórðung var staðan 13-16 fyrir Selfoss. Í 2. fjórðungi léku liðin áfram ágæta vörn en sóknarleikur þeirra var stirður sem fyrr. Skotnýtingin var afleit. Selfyssingar höfðu yfirhöndina en Hrunamennirnir voru aldrei langt undan. Gasper Rojko lék vel fyrir Selfoss bæði í vörn og sókn.
Hrunamenn héldu að langmestu leyti við sama varnarafbrigðið. Yngvi Freyr Óskarsson hélt sig undir körfunni og var tilbúinn að tvöfalda á Gerard Robinson þegar boltinn var í höndunum á honum. Þannig náðu Hrunamenn að halda Gerard eins mikið niðri og mögulegt er. Gerard er klókur leikmaður og veit að þegar tveir leikmenn gæta hans er einhver félaginn í lélegri gæslu eða jafnvel alveg frí og þann leikmann tókst Selfyssingum oft að finna en þeim leikmanni mistókst merkilega oft að hitta boltanum í körfuna.
Varnarupplegg Selfyssinga var að stöðva Kent Hanson og Clayton Ladine og treysta Gerard til þess að gæta Karlo Lebo undir körfunni. Gerard stendur framar Karlo í flestum þáttum leiksins en Karlo er hreyfanalegri og fljótari og tókst oft að nýta þann mun og losna þannig við Gerard og fá minni mann á móti sér í staðinn. Þegar Hrunamenn léku hægan sóknarleik hélt vörn Selfoss en í seinni hálfleik þegar hraðinn var meiri lék Clayton á als oddi og safnaði stigum fyrir liðið sitt með því að ráðast að körfunni og gera eitthvað skynsamlegt við boltann; setja hann ofan í körfuna, senda á hárréttum tíma á Kent sem tímsetur hlaupin sín á bak við vörnina mjög vel eða einfaldlega leika gamla góða vegg og veltu kerfið með Kent eða Karlo.
Leikurinn var jafn allt til loka. Munurinn á liðnum varð aldrei mikill. Í lokafjórðungnum tefldu þjálfararnir fram sömu leikmönnunum lengi í einu. Þeir voru örþreyttir en þjálfararnir vildu ekki breyta liðunum á þeirri stundu. Í margar mínútur var jafn, 77-77, og þegar leiktíminn var úti stóðu leikar 82-82 svo framlengja þurfti leiknum. Í framlengingunni kom Eyþór Orri til skjalanna. Eyþór les leikinn einkar vel. Hann er fljótur að átta sig á því hvernig andstæðingarnir útfæra leikkerfin. Þessi útsjónarsemi færir Eyþóri forskot sem í framlengingu þessa leiks dugði til að stöðva a.m.k. tvær sóknir Selfyssinga. Örþreyttir Hrunamenn sigu fram úr og tókst að landa sigri í æsispennandi leik.