Vestri og Selfoss karfa mættust á Jakanum á Ísafirði í gær 1. deild karla. Þetta var annar leikur Vestra í deildinni en liðið hafði unnið Snæfell örugglega í fyrstu umferð. Selfoss kom inn í leikinn með einn sigur og eitt tap á bakinu.
Gangur leiksins
Vestri byrjaði á að skora 6 fyrstu stigin með þriggja stiga körfum áður en gestirnir svöruðu. Selfyssingar jöfnuðu í stöðunni 13-13 eftir körfu frá Kristijan Vladović en þá skyldu leiðir aftur og Vestri leiddi með 9 stigum, 24-15, í lok fyrsta leikhluta.
Besti kafli Selfyssinga kom í öðrum leikhluta en þar náðu þeir muninum minnst niður í 3 stig, 35-31. Gestirnir unnu leikhlutann 19-15 og var staðan í hálfleik 39-35 Vestra í vil.
Í þriðja leikhluta fóru þó að skilja leiðir og náði Vestri mest 16 stiga forustu í leikhlutanum og leiddi 61-50 í lok hans.
Lokaleikhlutinn reyndist svo hálfgert formsatriði. Selfyssingar töpuðu boltanum sjö sinnum í leikhlutanum og nýttu heimamenn sér það grimmt og unnum að lokum öruggan 23 stiga sigur, 87-64.
Tölfræðin
Vestri tók 42 þriggja stiga skot í leiknum á móti einungis 34 tveggja stiga skotum en 45 af 87 stigum liðsins komu af þriggja stiga línunni. Öflugastur hjá Vestra fyrir var Hilmir Hallgrímsson með fjórar þriggja stiga körfur í sjö skotum.
Helstu stigaskorarar
Nebojsa Knezevic var stigahæstur hjá Vestra með 20 stig en auk þess gaf hann 7 stoðsendingar. Hilmir Hallgrímsson og Marko Dmitrovic komu næstir með 17 stig og Matic Macek bætti við 16 stigum, 5 stoðsendingum og 5 stolnum boltum. Vestfjarðartröllið og frákastakóngur 1. deildarinnar síðustu tvö ár, Nemanja Knezevic, hafði hægt um sig og var með 4 stig og 12 fráköst á um 22 mínútum en hann var í villuvandræðum allan leikinn og fékk sína fimmtu villu þegar um 7 mínútur voru eftir af leiknum.
Hjá Selfoss var Christian Cunningham yfirburðarmaður með 23 stig og 16 fráköst. Honum næstur komu Kristijan Vladović með 11 stig og Arnór Bjarki Eyþórsson með 9 stig.
Næst á dagskrá
Bæði lið eiga sinn næsta leik á móti Skallagrím í Borgarnesi, Vestri fimmtudaginn 24. október og Selfoss sunnudaginn 28. október.
Myndir: Anna Ingimars