spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHeimamenn sigldu fram úr í síðari hálfleik

Heimamenn sigldu fram úr í síðari hálfleik

Í upphafi þessa leiks leit út fyrir að varnir liðanna væru ennþá í landsleikjapásu því liðin skoruðu að vild fyrstu mínúturnar.  Lítil sem engin stopp í fyrsta leikhluta og staðan að honum loknum, 31-33 fyrir Hauka.

Í 2. leikhluta mættu varnirnar loksins til leiks og tóku heimamenn fjórðunginn 18-17 og voru þar með 1 stigi undir í hálfleik, 49-50.

Jafnræði var með liðunum til að byrja með í seinni hálfleik en þá settu heimamenn í fluggírinn og 3-stiga flugeldasýning fór í gang!  Allir voru að setja hann fyrir utan og þegar munurinn var kominn í 20 stig, 90-70 héldu flestir að leik væri lokið en Haukarnar neituðu að gefast upp og settu næstu 11 stig og þetta því orðinn leikur aftur.  Endaspretturinn var þó heimamanna og kláraði Bamba leikinn með frábærri troðslu, þvílíkur íþróttamaður!

Erfitt er að taka einn út úr jöfnu liði heimamanna en þrír voru ansi jafnir en Óli Ól þó fremstur á meðal jafningja með 30 framlagspunkta (25, 4, 4, hitti 5/5 í 2. og 4/6 í 3-stiga).  Bamba var með 25 punkta (22 stig og 12 fráköst) og Jordy skilaði 23 (21 stig, 6 fráköst og 9 STOÐSENDINGAR).  Ekki amalegt fyrir heimamenn að sigla tiltölulega öruggum sigri í höfn og lítið kom frá bakverðasveitinni.  Allir vita hvers Lewis og Sigtryggur Arnar eru megnugir en sérstaklega á sá síðarnefndi mikið inni m.v. frammistöðuna á síðasta tímabili.  Grindvíkingar því í góðum málum eftir brösuga byrjun.

Haukarnir geta borið höfuðið nokkuð hátt því þeir léku án Bandaríkjamannsins síns en Marques Oliver gat ekki leikið vegna meiðsla.  Aldrei að vita hvernig leikurinn hefði þróast ef þessa öfluga leikmanns hefði notið við.  Langbesti maður Hauka var hinn ungi og gífurlega efnilega Hilmar Smári Henningsson en hann skilaði 41 punkti! (28 stig og 9 fráköst).  Svakalegt efni þar á ferð!  Hjálmar Stefáns er virkilega flottur leikmaður og skilaði góðum tölum í kvöld eða 26 punktum (23 og 7 fráköst).  Haukur Óskars var á eldi í fyrri hálfleik og hver veit hvað hefði gerst ef hann hefði haldið áfram á sömu braut í seinni hálfleik en hann komst ekki á blað í seinni hálfleik fyrr en skammt lifði leiks og það var einfaldlega of seint.

Liðin höfðu því sætaskipti og er Grindavík í fyrsta skipti í vetur komið inn í úrslitakeppnissæti en vissulega er allt of snemmt að spá í slíku.

Viðtöl kvöldsins tók enginn annar en „the media mogul“, Jón Gauti Dagbjartsson

 

Fréttir
- Auglýsing -