Þrír leikir fóru fram í úrslitakeppni NBA deildarinnar í nótt þar sem Atlanta Hawks, LA Lakers og Dallas Mavericks tryggðu sig öll áfram og inn í undanúrslitin. Atlanta skellti Orlando 4-2, Lakers tók Hornets 4-2 og Dallas veltu Portland 4-2.
Aðeins ein sería er eftir í fyrstu umferð úrslitakeppninnar en það er sería San Antonio Spurs og Memphis Grizzlies þar sem Memphis leiðir 3-2.
Atlanta Hawks 84 – 81 Orlando Magic
Atlanta vann seríuna 4-2
Dwight Howard gerði 25 stig og tók 15 fráköst fyrir Orlando í þessum síðasta leik Magic á tímabilinu. Hugsanlega gæti þetta verið síðasti leikur Howard fyrir Magic en sterkur rómur hefur verið gerður að því að hann leiti á önnur mið. Sjáum hvað setur. Joe Johnson var svo stigahæstur hjá Hawks í nótt með 23 stig og 10 fráköst. Næstir í röðinni hjá Hawks eru sjóðheitir liðsmenn Chicago Bulls í undanúrslitum og í hinni undanúrslitarimmunni á austurströndinni mætast Miami Heat og Boston Celtics.
New Orleans Hornets 80 – 98 LA Lakers
Lakers vann seríuna 4-2
Kobe Bryant var stigahæstur í sigurliði Lakers í nótt með 24 stig og Bynum bætti við tvennu með 18 stig og 12 fráköst. Carl Landry gerði 19 stig hjá Hornets og Chris Paul var rólegur með 10 stig en gaf 11 stoðsendingar. Lakers mun svo mæta Dallas í undanúrslitum.
Portland Trail Blazers 96 – 103 Dallas Mavericks
Dallas vann seríuna 4-2
Þjóðverjinn Dirk Nowitzki bauð upp á myndarlega tvennu í leiknum með 33 stig og 11 fráköst í liði Dallas. Hjá Portland var Gerald Wallace ekki með síðri tvennu, 32 stig og 12 fráköst. Portland er komið í sumarfrí en Dallas mætir Lakers í næstu umferð.
Mynd/ Jamal Crawford bakvörður Hawks var sæll með sigur sinna manna í nótt.