spot_img
HomeFréttirHaukur Helgi: Sáttur við mína eigin frammistöðu

Haukur Helgi: Sáttur við mína eigin frammistöðu

14:00
{mosimage}

(Haukur Helgi Pálsson)

,,Ég er búinn að vera í byrjunarliðinu alla þrjá leikina og hér er mikið í húfi enda einhverjir sex NBA njósnarar á mótinu,“ sagði Fjölnismaðurinn Haukur Helgi Pálsson sem nú er staddur í Róm á Road to Berlin mótinu sem ber undirskriftina NIKE International Junior Tournament. Hauki var boðið að leika með ítalska liðinu Stella Azzurra en þeir eru mótshaldarar og unglingalið Roma þar sem Jón Arnór Stefánsson lék á síðustu leiktíð. Mótið sjálft er meistaradeild unglingaliðanna sem koma víða að og segir Haukur vörnina á mótinu vera svakalega.

,,Ég hef það fínt en það er búið að vera svolítið erfitt stundum að vera hérna yfir hátíðarnar,“ sagði Haukur en liðsfélagar hans í Stella Azzurra skilja lítið í ensku. ,,Ég er samt alveg að hanga með þeim og hef gaman af þessu og þeir bara tala með höndunum fyrir mig,“ sagði Haukur léttur í bragði þegar Karfan.is náði tali af honum en þá var hann í miðju kafi í Guitar Hero tölvuleiknum og það í vandaðri útgáfu með trommusetti og öllum pakkanum.

Haukur hefur verið í byrjunarliði Azzurra alla þrjá leikina en var óheppinn í fyrsta leik þegar Azzurra mætti Alba Berlin og hafði þar nauman 81-79 sigur. Haukur var í byrjunarliðinu og lék í 17 mínútur og gerði 8 stig og var með 2 stolna bolta. ,,Ég var óheppinn í fyrsta leik þar sem ég snéri mig á ökkla en kom teipaður aftur inn í leikinn,“ sagði Haukur.

,,Ég snéri mig svo aftur í þriðja leiknum og kom ekki aftur inn á. Ég vona að ég verði með í dag enda mun ég segja öllum hér að það sé allt í fínasta lagi með mig enda mikið í húfi þar sem hér eru t.d. 6 NBA njósnarar og því gaman að vita að fólk fylgist vel með mótinu,“ sagði Haukur.

Í öðrum leiknum með Azurra mætti liðið Zalgiris Kauns og máttu Ítalarnir sætta sig við 74-91 ósigur. Haukur var þá aftur í byrjunarliðinu og lék í 27 mínútur, gerði 5 stig, tók 6 fráköst og var með 2 stolna bolta. Í þriðja leiknum meiddist Haukur snemma gegn Benetton Basket Treviso en þar höfðu Azzurramenn öruggan 98-78 sigur. Haukur var í byrjunarliðinu en lék rétt rúmar 8 mínútur, gerði 2 stig og tók 3 fráköst.

,,Ég er sáttur við mína eigin frammistöðu á mótinu en ég er kannski ekki að gera neinar rósir í sókninni en er að spila góða vörn þó ég segji sjálfur frá. Vörnin hér á mótinu er rosaleg, þvílík liðsvörn og öll hjálparvörn góð. Maður kemst kannski fram hjá sínum varnarmanni en þá eru komnir tveir risar upp á 210 sm. í hjálparvörnina,“ sagði Haukur sem lenti í nokkru basli á leið sinni til Ítalíu.

,,Ég missti af fluginu frá Mílan til Róm en þetta bjargaðist þar sem ég tók lest í staðinn og var í 8 tíma á leiðinni, þetta reddaðist allt,“ sagði Haukur léttur sem hefur ekki átt mikil samskipti við forsvarsmenn liðsins. ,,Þeir tala lítið við mann en ég held að ég sé að gera góða hluti hérna víst ég er ennþá í byrjunarliðinu. Strákarnir í liðinu eru allir að spyrja mig hvort ég sé að koma til þeirra í hópinn en ég hef ekkert heyrt í félaginu sjálfu. Þetta er fyrsta erlenda liðið sem sýnir mér áhuga en það er ekkert tilboð á borðinu,“ sagði Haukur sem fékk inn á þetta mót þegar ítalskur njósnari sá hann leika með U 16 ára landsliði Íslands á Evrópumótinu í Bosníu síðasta sumar.

Stella Azzurra leikur til úrslita um 5. sætið á mótinu í dag gegn Union Olimpija kl. 16:00 að ítölskum tíma eða kl. 15:00 að íslenskum tíma. Haukur er svo væntanlegur aftur til Íslands annað kvöld.

[email protected]

Fréttir
- Auglýsing -