Assignia Manresa vann í kvöld góðan heimasigur í ACB deildinni á Spáni þegar UCAM Murcia kom í heimsókn. Lokatölur leiksins voru 83-74 Manresa í vil þar sem Haukur Helgi Pálsson skoraði fimm stig í leiknum á tæpum fimm mínútum. Með sigrinum er Manresa komið í 11. sæti deildarinnar með 6 sigra og 8 tapleiki.
Haukur tók einnig tvö fráköst í leiknum og átti fullkominn leik ef þannig má að orði komast, 1/1 í þriggja stiga og 1/1 í teignum, vel nýttur tíminn hjá kappanum þetta sinnið.
Real Madrid komst svo á topp ACB deildarinnar í kvöld þegar boðið var upp á eitt stykki ,,El Classico“ þegar Madrídingar fengu Barcelona í heimsókn. Lokatölur 78-74 Madríd í vil þar sem Ante Tomic og Jaycee Carroll gerðu báðir 16 stig í liði Madríd en hjá Börsungum var Pete Mickeal með 14 stig.