Haukur Helgi Pálsson hefur síðustu dægrin verið að koma sér fyrir hjá nýja félagi sínu Manresa á Spáni. Á dögunum mættust hann og Jón Arnór Stefánsson í æfingaleik en eins og þegar hefur komið fram mun Ísland eiga tvo fulltrúa í ACB deildinni á komandi leiktíð. Karfan.is tók stuttan púls á Hauki sem kann vel við sig ytra.
,,Þetta lítur körfuboltalega séð allt mjög vel út þó borgin sé ekki mikið fyrir augað. Ég er samt í um 40 mínútna fjarlægð frá Barcelona og ég á örugglega eftir að fara mikið þangað. Leikurinn á móti Jóni um daginn var skemmtilegur þrátt fyrir tapið, við hentum þessu frá okkur í fjórða leikhluta eða eins og Jón sagði við mig eftir leik að það væri eins og ýtt hefði verið á ,,off“ takkann á okkur,“ sagði Haukur en Manresa lét Zaragoza skora 23-0 á sig og þar stóð hnífurinn í kúnni.
,,Það var gaman að fá að dekka Jón í alvöru leik en ekki bara á æfingu, það gerir þetta skemmtilegra,“ sagði Haukur sem er með leikheimild með varaliði Manresa.
,,Vonandi fæ ég bara að sjá hvað verður í framhaldinu á þessu tímabili, ef svo fer að ég fái ekki mikið að spila fyrsta árið mitt þá er ég með heimild til að spila með varaliðinu. Þeirra hugsun er samt sú að ég spili með aðalliðinu þannig að það verður bara forvitnilegt að sjá hvað gerist.“
Mynd/ Frá viðureign Manresa og Zaragoza á dögunum.