Líkurnar á sigri voru ekki beint með Hamarsstúlkum fyrir leik þeirra gegn stórskotaliði Hauka. Það er í raun ósanngjarnt að láta þessi lið etja kappi – Haukar með atvinnumanns-kaliber í hverri stöðu á móti ungu og lítið reyndu liðið Hamars.
Leikurinn hófst líka eftir því. 30 stiga skothríð Hauka gegn fáum svörum Hamars. Haukar hittu 5/11 úr þristum og hirtu þau fáu sóknarfráköst sem buðust. Sama var uppi á teningnum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en til að setja hluti í samhengi þá skoruðu Hamarsstúlkur 0,53 stig í hverri sókn á móti 1,10 frá Haukum. Staðan 49-22 í hálfleik.
Haukar mættu fremur afslappaðir til leiks eftir leikhlé. Hættu að hitta úr skotunum sínum og töpuðu alls 7 boltum í þriðja hluta. Hamar nýtti færið og tókst að minnka muninn um 7 stig en meira varð það ekki.
Síðustu 10 mínúturnar var leikinn af varamönnum Hauka og í raun formsatriði fyrir heimamenn að klára. Öruggur 84-49 sigur Hauka staðreynd og Haukastúlkur enn taplausar eftir 7 umferðir.
Enginn leikmaður Hauka spilaði undir 10 mínútur í leiknum en Helena Sverrisdóttir og Pálína Gunnlaugsdóttir spiluðu báðar öðru hvoru megin við 20 mínútur. Helena leiddi Hauka með 14 stig, 11 fráköst, 4 stoðsendingar og 5 stolna bolta. Hjá Hamri var Suriya McGuire stigahæst með 14 stig og 9 fráköst.
Mynd úr safni: Helena Sverrisdóttir leiddi Hauka með 14 stig. (Bára Dröfn)