spot_img
HomeFréttirHaukasigur í fyrsta leik

Haukasigur í fyrsta leik

 

Það var hörkustemmning á Ásvöllum þegar að Íslandsmeistarar KR mættu í Hafnarfjörðinn til þess að etja kappi við deildarmeistara Hauka, Korn í græjunum og stuð á pöllunum. KR ingar komu half fáliðaðir enda vantaði bæði þá Jón Arnór Stefánsson og Brynjar Þór Björnsson.

 

Eftir fjörugan leik sem Haukar stjórnuðu að mestu þá náðu þeir að lokum í sterkan sigur, 1-0 í seríunni og næsti leikur á mánudaginn í Frostaskjóli.

 

Atkvæðamestur í liði heimamanna var Haukur Óskarsson með 15 stig, 9 fráköst og 2 stolna bolta. Hjá KR var Björn Kristjánsson með 17 stig og 5 fráköst.

 

 

 

Gangur leiksins

Haukar byrjuðu leikinn miklu betur og gáfu tóninn strax í fyrstu sókn með fínum þristi frá Finni Atla. Leikurinn hélst svo jafn þar til stöðunni 15-13 þegar að vörn Hauka skellti í lás og KR áttu engin svör við þeim það sem eftir lifði leikhlutans, hvorki varnar- né sóknarmegin. Leikhlutanum lauk með Hafnfirðinga í forystu, 30-20. Þessari forystu héldu Haukarnir nokkurn vegin allan leikinn.

 

Í öðrum leikhluta var það sama upp á teningnum, mikil barátta en liðunum gekk illa að skora. Það voru helst þeir Haukur Óskarsson og Björn Kristjánsson sem héldu uppi stigaskori liðanna. Á þessum tímapunkti voru KRingar farnir að láta fasta vörn heimamanna fara svolítið í taugarnar á sér og uppskar bekkurinn tæknivillu. Leikhlutinn fór 15-17 fyrir KR og ekki margt um fína drætti. Þó má minnast á flotta vörn hins unga Arnórs Hermannssonar sem tókst að klippa Kára Jónsson út úr leiknum á kafla. Staðan var svo 45-37 fyrir Hauka í hálfleik.

 

Síðari hálfleikur spilaðist svipað og sá fyrri, Haukar með smá forystu en KR aldrei langt undan, heimamönnum tókst samt að setja rétt skot á réttum tíma þrátt fyrir smá ströggl, þarna er vert að minnast á framlag Kristjáns Sverrissonar sem spilaði frábæra vörn í leikhlutanum og bætti við nokkrum fínum körfum til þess að halda KR örlítið í burtu, staðan 60-54 eftir þrjá leikhluta.

 

Lokaleikhlutinn spilaðist svo svipað, KR náði að minnka muninn í 4 stig en þá fékk Helgi Magnússon á sig frekar ódýra óíþróttamannslega villu í baráttu um frákast og Haukarnir nýttu sér það, komust 9 stigum yfir og litu aldrei til baka. Örvæntingafullar tilraunir KR í lokin dugðu ekki til og það var sérstaklega vont að fylgjast með því hversu illa KR breiddu úr gólfinu þegar þeir spiluðu vagg og veltu. Haukarnir pökkuðu teiginn, það gekk upp og þeir lönduðu mikilvægum sigri, 76-67.

 

 

Tölfræðin lýgur ekki

Eins og fyrr segir þá var þessi leikur ekki mikið fyrir augað. Haukarnir skutu talsvert betur fyrir utan þriggja stiga línuna og það varð að endingu sennilega munurinn á liðunum. Haukar settu 8 þriggja stiga skot í 23 tilraunum en KR einungis 4 þrista í 18 tilraunum, betur má ef duga skal.

Þessi liður heitir ,,Tölfræðin lýgur ekki” og það eru orð að sönnu, þetta var jafn leikur. Liðin tóku bæði 66 skot, frákastamunurinn var 41-40, tapaðir boltar 15-18 og bæði liðin vörðu 5 skot.

 

 

Breiddin

Haukar fengu gott framlag frá mörgum mönnum í dag og sést það best á því að bekkurinn hjá þeim skoraði 28 stig gegn 11 frá Vesturbæingum, þar munaði mest um Hauk Óskarsson en einnig var Kristján Leifur góður. Bæði Vilhjálmur og Arnór hjá KR komu með ágætis baráttu en það þurfa að koma fleiri stig af bekknum hjá KR, það bætist vonandi úr því ef Brynjar og/eða Jón koma til baka en það er ekkert ljóst hvort það gerist, á meðan þeir eru frá og KR fær lítið frá erlenda leikmanninum sínum eru þeir með þunnan hóp.

 

 

Hetjan

Fyrir undirritaðann kemur bara 1 til greina þarna. Haukur Óskarsson byrjaði óvænt á bekknum eftir að hafa byrjað næstum alla leiki Hauka í vetur. Það var ekkert vesen fyrir Hauk, hann tók nýju hlutverki eins og alger höfðingi og kom eldheitur af bekknum. Skoraði strax 2 þrista og var duglegur að skora allan leikinn. Sérstaklega þegar að Haukar þurftu nauðsynlega á körfum að halda. Hann lauk leik með 15 stig, 9 fráköst, 2 stolna bolta og spilaði hörkuvörn að auki.

 

 

Tölfræði leiksins

 

 

Umfjöllun Sigurður Orri Kristjánsson

Myndir Bára Dröfn

Fréttir
- Auglýsing -