spot_img
HomeBikarkeppniHaukar VÍS bikarmeistarar í 10. flokki stúlkna

Haukar VÍS bikarmeistarar í 10. flokki stúlkna

Haukar urðu rétt í þessu VÍS bikarmeistarar í 10. flokki stúlkna eftir sigur gegn KR í úrslitaleik í Smáranum.

Á leið sinni í úrslitaleikinn hafði KR lagt Ármann nokkuð örugglega á meðan Haukar unnu Stjörnuna í spennandi leik í undanúrslitunum.

Ekki svo langt síðan KR og Haukar mættust síðast í deildinni, en þann 20. febrúar unnu Haukar 25 stiga sigur gegn KR í Hafnarfirði, 76-51. Staða liðanna í deildinni nokkuð ólík þó aðeins sé sæti á milli þeirra. Haukar í öðru sætinu með 11 sigra og 3 töp á meðan KR er í 3. sætinu með 8 sigra og 6 töp það sem af er tímabili.

Mikið jafnræði var á með liðunum í upphafi leiks, en eftir fyrsta fjórðung var það KR sem var skrefinu á undan, 16-12. KR heldur forskoti sínu vel inn í annan leikhlutann, en þegar hann er um það bil hálfnaður leiða þær 26-20. Undir lok hálfleiksins ná Haukar að stoppa í gatið og komast yfir, en leikurinn er þó hnífjafn þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik, 30-31.

Stigahæst fyrir KR í fyrri hálfleiknum Klara Líf Pálsdóttir með 9 stig á meðan Inga Lea Ingadóttir var með 9 stig fyrir Hauka.

Haukar ná að opna seinni hálfleikinn á góðu áhlaupi og eru eftir nokkurra mínútna leik komnar 9 stigum yfir, 32-41. KR gerir vel að missa þær ekki lengra frá sér og ná aðeins að spyrna við, en munurinn þó 9 stig fyrir lokaleikhlutann, 41-50. Baráttuglatt lið KR nær að halda Haukum við efnið í upphafi fjórða leikhlutans. Forysta Hauka þó lengst af nokkuð þægileg og munar enn 5 stigum þegar rúmar fimm mínútur eru eftir af leiknum, 49-54.

Haukar eru áfram skrefinu á undan inn í brakmínútur leiksins, en KR er ekki langt undan, munurinn 3 stig þegar um mínúta er eftir, 57-60. KR kemst þó aldrei í tækifæri til þess að jafna eða komast yfir á lokamínútunni og að lokum fara Haukar með sigur af hólmi.

Varnarlega var Haukaliðið frábært í þessum leik. Lang auðveldast að segja að það hafi skapað þennan sigur fyrir þær. Voru sóknarlega góðar líka, duglegar að deila boltanum og fundu oftar en ekki glufuna sem þær leituðu að hjá KR. Einnig má hrósa KR liðinu fyrir að hafa haldið áfram að reyna þrátt fyrir að vera nokkuð undir á löngum kafla í seinni hálfleiknum. Hengdu ekki haus og héldu alltaf áfram.

Atkvæðamestar í liði Hauka í kvöld voru Inga Lea Ingadóttir með 26 stig, 18 fráköst, 7 varin skot og Arnheiður Ísleif Ólafsdóttir með 12 stig, 17 fráköst og 5 stoðsendingar.

Fyrir KR var Klara Líf Pálsdottir atkvæðamest með 15 stig, 6 fráköst og 5 stoðsendingar. Henni næst var Ásta Bryndís Ágústsdóttir með 14 stig og 6 fráköst.

Tölfræði leiks

Myndasafn (væntanlegt)

Fréttir
- Auglýsing -