spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHaukar unnu KR í Frostaskjóli - Hansel Atencia með flautukörfuna sem vann...

Haukar unnu KR í Frostaskjóli – Hansel Atencia með flautukörfuna sem vann leikinn

KR og Haukar mættust í kvöld í öðrum leik liðanna eftir seinasta stoppið. KR hafði tapað gegn Þórsurum í Þorlákshöfn á meðan að Haukar höfðu unnið fysta leik sinn gegn ÍR. Haukar þurftu að vinna til að halda áfram í vonina um að halda sér uppi.

Leikurinn var heldur spennandi þó hvorugt lið var að skila sínum besta leik og honum lauk með ævintýralegri flautukörfu sem skilaði Haukum sigri, 69-72.

Gangur leiksins

Bæði lið mættu reiðubúin til leiks og tóku vel á því. KR-ingar höfðu fljótlega forystuna en Haukar tóku við sér og leiddu alveg þangað til að ein mínúta var eftir af fyrsta leikhluta, en þá komust KR-ingar fram úr með sniðskoti hjá Brandon Nazione. Staðan 21-19 eftir 10 mínútur.

Í öðrum leikhluta héldu liðin áfram að takast á og það var aldrei meira en fimm stiga munur á liðunum. Ty Sabin náði nokkrum góðum körfum en bandarískt leikmannagildi Hauka, Jalen Jackson var sömuleiðis mjög lunkinn að sækja stig framan af. Þrír leikmenn Hauka höfðu skorað 9 stig fyrir hálfleik, þeir Pablo Bertone, Jalen Jackson og Hansel Atencia. Haukar náðu forystunni aftur rétt fyrir hálfleik eftir flotta keyrslu á körfuna hjá Hansel en þá tók Jakob Sig sig til og setti þrist rétt fyrir flautugjallið. Staðan jöfn, 40-40 í hálfleik.

Haukar komu sterkari inn í seinni hálfleik og áttu góðan kafla sem skilaði sér í 6 stiga forystu þegar fimm mínútur voru liðnar. Darri Freyr, þjálfari KR, tók þá leikhlé til að reyna að leiðrétta muninn. Eftir rúmar þrjár mínútur höfðu KR-ingar aðeins skorað 4 stig en það var allt í lagi því að Haukar höfðu ekki skorað síðan í leikhléinu. Staðan var því 51-53 fyrir gestunum með mínútu eftir af þriðja. Haukar náðu loks að enda skorþurrðina með þristi frá Hilmari Péturssyni sem varð seinasta karfa leikhlutans og Haukar fimm stigum yfir með 10 mínútur eftir af leiknum, 51-56.

KR kom með offorsi inn í lokafjórðunginn og skoruðu 8 ósvöruð stig fyrstu þrjár mínúturnar til að endurheimta forystuna. Sævaldur, þjálfari Hauka, sá sig þá loks tilneyddan að taka leikhlé og ræða aðeins við liðið sitt sem virtist byrjað að missa haus. Jalen Jackson náði með nokkrum góðum stigum að koma Haukum aftur yfir en Brandon var fljótur að þurrka það út með löngum þristi. Leikurinn var mjög jafn.

Skotin voru ekki að rata ofan í fyrir Hauka á lokamínútunum og KR hafði fimm stiga forskot þegar rúm mínúta var til stefnu og Sævaldur nýtti annað leikhléið sitt til að brýna Haukamenn. Hansel byrjaði á að setja ansi laglegt flotskot niður til að minnka muninn í þrjú stig og Jalen setti síðan þrist eftir að hann braut ökklana á Tóta. KR-ingar tóku þá leikhlé og höfðu 10.1 sekúndu til að láta eitthvað gerast.

Matthías Orri tók boltann upp völlinn og sótti fast á Hansel hjá Haukum eftir að hafa fengið hindrun hjá Ty Sabin. Hansel hafði upp á Matta og náði að stela boltanum af honum og var næstum því búinn að stíga út af! Þá keyrði hann upp völlinn og setti upp skot frá miðju rétt áður en lokaflautan gall og skotið fór spjaldið ofan í! Engin tími eftir á klukkunni og Haukar því með sigurinn! Lokastaðan 69-72 fyrir Haukum.

Lykillinn

Lykillinn í kvöld voru þeir Hansel Atencia og Jalen Jackson. Jalen skilaði 20 stigum, tók 9 fráköst og setti mjög mikilvægan þrist til að jafna leikinn undir lok leiksins. Hansel skoraði 17 stig, gaf þrjár stoðsendingar og stal þremur boltum, þ.á.m. þeim mikilvægasta í lokavörn Hauka.

Hjá KR virtist sá eini með lífsmarki vera Brandon Nazione með 17 stig og sex fráköst.

Kjarninn

Hvorugt lið spilaði sinn besta bolta í kvöld en KR-ingar voru frekar slakir sóknarlega í kvöld. Það skal ekkert lið skammast sín fyrir að láta skora aðeins 72 stig á sig en það eru öllu verra þegar þitt eigið lið skorar aðeins 69 stig.

KR eru núna dottið niður í 5. sæti deildarinnar og hafa ekki heimavöllinn í 8-liða úrslitunum ef deildin endaði í dag. Þeir hafa núna tapað báðum leikjum sínum eftir annað stoppið og eins og Darri Freyr þjálfari þeirra ræddi í viðtali eftir leikinn þá er sóknin ekki alveg að smella.

Haukar eru núna komnir upp úr botnsætinu í bili og hafa unnið báða leiki sína eftir stoppið. Þeir eiga góðan séns á að halda sér uppi ef þeir halda áfram á þessari braut og það má sjá að liðið ber sig öðruvísi eftir þessa tvo sigra.

Viðtöl eftir leik

Hansel Atencia glaður eftir sigurkörfuna
Sævaldur Bjarnason hress eftir annan sigurleikinn í röð
Darri Freyr Atlason ekki sáttur með sóknarleik sinna manna
Matthías Orri Sigurðsson ekki glaður með útkomuna í kvöld
Fréttir
- Auglýsing -