Valsmenn áttu fyrstu fjögur stig leiksins þangað til Haukar gengu á lagið gegn svæðisvörn Valsmanna. Þeir skoruðu 9 stig gegn næstu 2 stigum heimamanna og voru því yfir, 6-9 þegar fyrsti leikhluti var hálfnaður. Sóknarleikur beggja liða var ekki uppá marga fiska og Haukar leiddu næstu mínútur. Þegar tvær mínútur voru eftir af leikhlutanum jafnaði Garrison Johnson með skoti fyrir utan þriggja, 11-11. Þegar flautað var til loka fyrsta leikhluta höfðu Haukar þriggja stiga forskot, 13-16.
Haukar mættu af fullri alvöru til leiks í öðrum leikhluta og juku strax forskotið. Þegar rúmlega tvær mínútur voru liðnar af leikhlutanum var munurinn kominn upp í 9 stig, 15-24 og Ágúst Björgvinsson tók leikhlé fyrir Valsmenn. Heimamenn áttu þó svör því þegar leikhlutinn var hálfnaður var munurinn kominn niður í 3 stig, 21-24. Haukar hleyptu þeim þó ekki nær en það og áttu næstu 5 stig leiksins. Liðin skiptust á að skora næstu mínútur og þegar flautað var til hálfleiks munaði fjórum stigum á liðinum, 30-34.
Stigahæstu menn í hálfleik voru Garrison Johnson með 14 stig fyrir Valsmenn en næstir voru Alexander Dungal og Igor Tratnik með 4 stig hvor. Hjá Haukum var Helgi Björn Einarsson stigahæstur með 12 stig en næstir voru Christopher Smith með 10 stig og 6 fráköst og Örn Sigurðarson með 4 stig.
Aftur mættu Haukar ákveðnir í upphafi þriðja leikhluta og þegar fjórar mínútur voru liðnar af leikhlutanum tók Ágúst leikhlé fyrir Valsmenn, 35-43. Valsmenn pressuðu Haukana hátt á völlinn og þegar leið á leikhlutan fór sá varnarleikur að skila sér. Þegar fjórar mínútur voru eftir af leikhlutanum höfðu Haukar 4 stiga forskot, 41-45. Haukar nýttu sér svæðisvörn heimamann til hins ýtrasta og settu öll sín þriggja stiga skot ofaní á tímabili. Þegar tvær mínútur voru eftir af þriðja leikhluta höfðu Haukar því 7 stiga forskot 45-53. Haukar brutu mikið af sér í þriðja leikhluta og voru farnir að senda Valsmenn á línuna í hvert skipti strax eftir 5 mínútur af leik. Stigahæsti maður Hauka, Helgi BJörn Einarsson fékk sína fjórðu villu undir lok leikhlutans en hann hafði þá skorað 18 stig. Þegar flautað var til loka þriðja leikhluta höfðu Haukar enn 7 stiga forskot, 49-56.
Haukar voru duglegir að sækja sóknarfráköstin í byrjun fjórða leikhluta og fengu oftar en ekki öll þau tækifæri sem þeir þurftu í sókninni. Þeir juku því muninn á upphafsmínútunum og þegar tvær mínútur voru liðnar var munurinn kominn upp í 10 stig, 51-61. Pétur Guðmundsson, þjálfari Hauka, tók leikhlé þegar þrjár og hálf mínúta var liðinn af leikhlutanum en Valsmenn höfðu þá á stuttum kafla náð muninum niður í 5 stig, 60-65, með flottum leik frá Ragnar Gylfasyni. Það munaði ennþá 5 stigum á liðunum þegar 5 mínútur voru eftir af leiknum. Þegar tæplega fjórar mínútur voru eftir af leiknum tók Ágúst leikhlé fyrir Valsmenn í stöðunni 62-70. Valsmenn höfðu náð muninum aftur niður í 5 stig þegar ein og hálf mínúta var eftir. Igor Tratnik var þá ekki ánægður með ákvörðun dómara og fékk fyrir vikið tæknivillu. Haukar fengu því 6 víti í einni og sömu sókninni þar sem aftur var brotið eftir tæknivilluna. Garrison Johnson setti niður 2 þriggjastiga körfur á lokasekúndunum og það munaði því 3 stigum þegar 8 sekúndur voru eftir og Hayward Fain var sendur á línuna og setti bæði niður. Ágúst tók þá leikhlé og tókst að keyra eina sókn sem dugði þó ekki til. Haukar höfðu því 3 stiga sigur, 73-76.
Mynd úr safni: Tomasz Kolodziejski