Haukakonur tryggðu sér í kvöld farseðil í úrslitaleik VÍS bikarkeppninnar með 9 stiga sigri á Val í Origo Höllinni, 59-68.
Gangur leiks
Mikið jafnræði var á með liðunum í upphafi leiks, eftir fyrsta leikhluta var staðan 14-12 fyrir Val. Undir lok fyrri hálfleiksins skiptast liðin svo á snörpum áhlaupum, en þegar að liðin halda til búningsherbergja í hálfleik er munurinn enn 2 stig, 28-26.
Á fyrstu mínútum seinni hálfleiksins nær Valur svo að byggja sér upp 7 stiga forystu. Haukar koma þó til baka og ná að vera 3 stigum yfir eftir þrjá leikhluta, 44-47. Í lokaleikhlutanum má segja að Haukakonur hafi keyrt yfir Val, vinna þann fjórða 21-15 og leikinn að lokum með 9 stigum, 59-68.

Munar um minna
Valskonur voru án landsliðsmiðherjans Hildar Bjargar Kjartansdóttur í leik kvöldsins. Það munar um minna fyrir liðið, en á síðasta tímabili var Hildur að skila 14 stigum, 9 fráköstum og 2 stoðsendingum að meðaltali í leik fyrir liðið.
Kjarninn
Þrátt fyrir að leikurinn hafi að mestu verið stál í stál sást greinilega hvort liðið var meira tilbúið í leik kvöldsins. Heimakonur í Val áttu nokkur góð áhlaup, en þegar það skipti máli, þá náðu Haukar að setja fótinn á bensíngjöfina og gjörsamlega keyra yfir þær. Ef ekki hefði verið fyrir stórleik Ameryst Alston og nokkur skot sem duttu hjá Hallveigu Jónsdóttur, þá hefði þetta aldrei verið spurning.

Atkvæðamestar
Ameryst Alston var atkvæðamest í liði Vals í kvöld með 28 stig og 11 fráköst. Fyrir Hauka var það Helena Sverrisdóttir sem dró vagninn með 16 stigum, 10 fráköstum og 5 stoðsendingum.
Hvað svo?
Haukar fara í úrslit keppninnar, þar sem þær munu mæta Fjölni komandi laugardag 18. september í Smáranum.