Haukastúlkur hafa komið sér úr nánast vonlausri stöðu í það að vera í kjörstöðu í einvígi sínu gegn Grindavík. Eftir að hafa lent 2:0 undir í einvíginu hafa þær með herkjum nú jafnað einvígið og geta tryggt sig í úrslit gegn Snæfell á mánudaginn nk. 60:63 varð lokaniðurstaða kvöldsins eftir að Haukar höfðu leitt með þremur stigum í hálfleik.
Grindavík hóf leikinn töluvert betur og voru ferskari á upphafs mínútunum. Komust fljótlega í stöðuna 9:2 en Hauka liðið með Helenu Sverrisdóttir í fararbroddi voru fljótar að koma sér í leikinn að nýju og aðeins munaði einu stigi á liðunum eftir fyrsta fjórðung. Við tók það saman í öðrum fjórðung. Bæði lið að spila harðan varnarleik og stigaskor leiksins var eftir því. Helena Sverrisdóttir lokaði fyrri hálfleik með huggulegum þrist um leið og flautan gall og Haukar leiddu með þremur stigum í hálfleik, 23:26.
Það voru gestirnir sem mættu svo grimmari til seinni hálfleiks og voru komnar í 6 stiga forskot eftir aðeins tveggja mínútna leik sem var mesti munur í leiknum fram að því. Áfram leiddar af Helenu Sverrisdóttir sem sá nánast um sóknarleik liðsins og í raun það lím sem batt varnarleik þeirra. Whitney Fraizer sem var nánast óstöðvandi í síðasta leik liðanna hér í Röstinni var langt frá sínu besta framan af leik og það munar um minna fyrir Grindavíkurliðið.
Þegar komið var í fjórða leikhluta var leikurinn í járnum. Þegar 5 mínútur voru til loka voru það aðeins 2 stig sem skildu liðin, gestirnir í forystu. Hvað eftir annað höfðu Grindavík verið nálægt því að komast í forystu leiksins en Helena Sverrisdóttir sá um að slíkt hefði ekki gerst fram að þeim tíma í það minnsta. Þegar á þennan tímapunkt var komið var hver sókn úrslitasókn fyrir liðin og því mátti hvorugt lið við því að taka stór feilspor. Jafnvel töpuð skot á vítalínunni voru dýrkeypt. Það varð svo raunin fyrir Grindavík sem misnotuðu einhver þrjú vítaskot á lokasprettinum. Þrátt fyrir það voru þær í bullandi séns og áttu allskostar möguleika á sigrinum en urðu að lúta í parket að þessu sinni.
Þetta kvöldið var munurinn á liðinum einfaldlega Helena Sverrisdóttir. Þvílíkur leikmaður sem þessi stúlka er og snilli hennar sýndi hún fram í fingurgóma í kvöld. Stelpan er ekki bara góð í körfuknattleik heldu er hún óhemju klár leikmaður sem skynjar leikinn gríðarlega vel. Ekki nóg með það að hún væri að klára flestar sóknarlotur Hauka með stigum eða herkænsku sendingum þá batt hún vörnina saman og þá helst á Whitney Fraizer sem var allt kvöldið í bölvuðu basli. Og slíkt telur svo sannarlega.
Oddaleikur liðana er á mánudag að Ásvöllum og sem fyrr segir Haukar aftur komnar í kjörstöðu en Grindavíkurliðið liggur eftir sært eftir að hafa komið sér í vænlega stöðu í einvíginu. En það er alltaf talað um að særð ljón sé þau hættulegustu og hugsanlega fara Grindavíkurstúlkur ekki bara særðar heldur pressulausar í næsta leik. Þær hafa jú unnið þar áður og ættu því alveg að getað endurtekið þann leik. Eitt er allavega víst að hart verður barist í þeim leik og ættu fáir unnendur körfuboltans að láta slíkt fram hjá sér fara.
Grindavík-Haukar 60-63 (13-12, 10-14, 16-19, 21-18)
Grindavík: Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 20, Petrúnella Skúladóttir 12/5 fráköst, Whitney Michelle Frazier 10/11 fráköst/6 stoðsendingar, Ingunn Embla Kristínardóttir 9/7 fráköst, Ingibjörg Jakobsdóttir 4, Björg Guðrún Einarsdóttir 3, Íris Sverrisdóttir 2, Sigrún Elfa Ágústsdóttir 0, Hrund Skúladóttir 0, Helga Einarsdóttir 0, Jeanne Lois Figeroa Sicat 0, Viktoría Líf Steinþórsdóttir 0.
Haukar: Helena Sverrisdóttir 32/8 fráköst/6 stoðsendingar, Pálína María Gunnlaugsdóttir 9/12 fráköst, Sylvía Rún Hálfdanardóttir 9/3 varin skot, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 7/6 fráköst, Dýrfinna Arnardóttir 4, María Lind Sigurðardóttir 2, Rósa Björk Pétursdóttir 0, Auður Íris Ólafsdóttir 0/6 fráköst, Shanna Dacanay 0, Þórdís Jóna Kristjánsdóttir 0, Ragnheiður Björk Einarsdóttir 0, Sólrún Inga Gísladóttir 0.
Dómarar:
Mynd/Texti: SbS