spot_img
HomeFréttirHaukar tryggðu sér úrslitaleik

Haukar tryggðu sér úrslitaleik

Haukar unnu stóran sigur á Njarðvík í kvöld á Ásvöllum í Iceland Express-deild kvenna 94-65. Keflavík vann einnig sinn leik sem þýðir að það verður úrslitaleikur eftir viku þegar Keflavík og Haukar há lokaorrustuna um það hvort liðið leikur í A-riðli, eða efri hluta deildarinnar, þegar henni verður skipt upp eftir næstu umferð.
Það var mikill hraði í upphafi leiks og Njarðvíkurstúlkur nýttu sér það og komust í 1-7 eftir aðeins tvær mínútur. Það var fínn tempó í leikmönnum beggja liða og voru þeir að skutla sér á eftir boltum og að berjast. Hafnfirðingar náðu að minnka muninn og komast yfir með þriggja-stiga skoti frá Heather Ezell um miðjan fyrsta leikhluta 15-14.
 
Það var augljóst að dagskipun Unndórs Sigurðssonar, þjálfara Njarðvíkur, var að leggja ofur áherslu á að stoppa Heather Ezell. Hún þurfti að hafa mikið fyrir því að ná skotunum sínum í upphafi og það var pressað stíft á hana þegar hún var ekki með boltann. Fór hún því að skjóta beint af dribblinu og flugu nokkrir þristar hjá henni í kjölfarið. Eftir það losnaði aðeins um hana og stigin bættust hratt á töfluna.
 
Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 29-20 Haukum í vil og mikill kraftur í báðum liðum.
 
Annar leikhluti var eign Hauka og þá kannski helst Heather Ezell en hún skoraði 22 stig í leikhlutanum og var því kominn með 34 stig þegar flautað var til hálfleiks en hún skoraði 12 stig í þeim fyrsta.
 
Liðin skiptust á körfum fyrstu mínútuna í öðrum leikhluta en í stöðunni 37-25 Haukum í vil kom frábær kafli hjá heimastúlkum þar sem munurinn jókst jafnt og þétt og áður en yfir lauk munaði 27 stigum í hálfleik. Til að kóróna frábæra frammistöðu Heather Ezell setti hún flautukörfu langt utan að velli og allt virtist falla með þeim rauðu.
 
Seinni hálfleikur varð aldrei spennandi því að lið Hauka var aldrei að fara gefa frá sér muninn og höfðu þær að lokum sigur 94-65.
 
Heather Ezell var af í kvöld með ótrúlega þrennu 40 stig, 13 stoðsendingar og 10 fráköst. En það sem stóð upp úr í leik Hauka var hve margir leikmenn lögðu sitt af mörkum í sókn og vörn en það hefur háð liðinu í vetur hve leikmenn liðsins treysti á að Heather Ezell geri allt. Kiki Lund skoraði 17 stig og Helena Hólm 10.
 
Hjá Njarðvík var Shantrell Moss allt í öllu. Þar er frábær leikmaður á ferð sem var með tvennu í kvöld 30 stig og 15 fráköst. Ólöf Helga Pálsdóttir var með 17 stig og turnarnir tveir Helga Jónasardóttir og Harpa Hallgrímsdóttir voru með níu og átta fráköst.
 
 
 
Fréttir
- Auglýsing -