spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaHaukar tryggðu sér oddaleik með sigri í spennuleik í Smáranum

Haukar tryggðu sér oddaleik með sigri í spennuleik í Smáranum

Deildarmeistarar Hauka lögðu Grindavík í Smáranum í kvöld í fjórða leik liðanna í átta liða úrslitum Bónus deildar kvenna, 81-86.

Með sigrinum tryggðu Haukar sér oddaleik í einvíginu, en eftir að Grindavík vann fyrstu tvo leikina hafa þær nú komið til baka og jafnað það, 2-2.

Leikur dagsins var gríðarlega jafn á upphafsmínútunum og mátti varla sjá á milli liðanna. Haukar náðu þó að klára fyrsta fjórðunginn fjórum stigum á undan, 22-26. Vel inn í annan fjórðunginn halda þær þeirri forystu sinni, en um miðbygg leikhlutans nær Grindavík að snúa taflinu sér í vil og halda því þangað til loka fyrri hálfleiksins, en þegar liðin halda til búningsherbergja í hálfleik eru heimakonur tveimur stigum yfir, 44-42.

Vel inn í seinni hálfleikinn er leikurinn í járnum. Haukum tekst þó að vera körfu á undan undir lok þriðja leikhlutans og munar tveimur stigum á liðunum fyrir lokaleikhlutann, 62-64.

Í fjórða leikhlutanum nær Grindavík aftur eilitlum tökum á leiknum og leiða þær lengst af í fjórðungnum. Á lokamínútunum ná Haukar þó góðu áhlaupi og forystunni aftur. Á síðustu andartökum leiksins ná þær svo að klára með nokkuð sterkum fimm stiga sigri, 81-86, en það var mesti munur liðanna í öllum leiknum.

Atkvæðamest fyrir Grindavík í leiknum var Daisha Bradford með 31 stig og 11 fráköst. Henni næst var Mariana Duran með 16 stig, 9 fráköst og 8 stoðsendingar.

Fyrir Hauka var Tinna Guðrún Alexandersdóttir atkvæðamest með 32 stig og Lore Devos bætti við 17 stigum, 8 fráköstum og 5 stoðsendingum.

Oddaleikur Hauka og Grindavíkur er á dagskrá komandi miðvikudag 16. apríl í Ólafssal.

Tölfræði leiks

Fréttir
- Auglýsing -