Valur og Haukar mættust í annarri viðureign liðanna í úrslitarimmu úrvalsdeildar kvenna í dag á Hlíðarenda. Haukar höfðu unnið fyrsta leikinn örugglega með 17 stigum og Valsstúlkur höfðu harma að hefna. Leikurinn var svo spennandi að forsetinn sjálfur, Guðni Th., sá sig tilneyddan að mæta. Heimastúlkurnar á Hlíðarenda mættu vel stemmdar til leiks og náðu með aggressívari vörn og góðri sókn að sigra Hauka í hörkuleik, 80-76.
Gangur leiksins
Valur leit strax betur út en í seinasta leik og þar spilaði inn í öflug vörn og sókn. Haukar voru þó hvergi bangnir og framan af var sókn þeirra flæðandi og skilaði stigum. Það var meira um harða vörn eftir því sem leið á og mikið um tapaða bolta hjá báðum liðum, þau skiptust á að taka áhlaup og skildu 21-23 eftir fyrsta leikhluta. Þóra Kristín Jónsdóttir hafði þá skorað 14 stig fyrir Hauka sem urðu einu stigin hennar í öllum leiknum.
Áfram voru liðin mikið að tapa boltum og Valur hleypti Haukum aðeins fram úr sér á fyrstu fimm mínútum annars leikhluta. Í stöðunni 29-36 stigu þær Bergþór Holton Tómasdóttir og Guðbjörg Sverrisdóttir upp og leiddu Val í 10-0 áhlaupi til að endurheimta forystuna. Guðbjörg átti síðan fléttu fyrri hálfleiks þegar að hún stal innkasti Hauka á lokasekúndunum og setti þrist í andlitið á gamla liðinu sínu. Staðan var því 44-41 í hálfleik.
Líkt og í fyrsta leik liðanna í úrslitarimmmunni voru Valsstúlkur á köflum mjög duglegar að sækja sóknarfráköstin, en þær sóttu 9 sóknarfráköst í þriðja leikhluta gegn aðeins einu slíku hjá Haukum. Valur var líka að verjast ágætlega og þær takmörkuðu gestina vel í leikhlutanum, enda skoruðu Haukar aðeins 8 stig á þessum 10 mínútum, þ.a. 6 stig sem Helena skoraði. Haukar töpuðu 8 boltum í þessum leikhluta og forskot Valsstúlkna varð mest 14 stig. Staðan var því 63-49 þegar aðeins lokafjórðungurinn var eftir.
Valur lét aðeins undan í fjórða leikhluta, en þær voru þó áfram að sækja körfur. Haukar voru alltaf á eftir þeim og á 4. mínútu náðu þær að skora 5 stig á örfáum sekúndum og útlit fyrir að leikurinn væri að snúast. Hlíðarendastúlkurnar hertu sig þá í vörninni og skiluðu nokkrum góðum mínútum svo að Ingvar Þór, þjálfari Hauka, þurfti að taka leikhlé með rétt rúmar 3 mínútur eftir í stöðunni 76-64. Haukar tóku sig til og áttu glæsilegar lokamínútur þar sem þær skoruðu 12 stig gegn 4 stigum Valsara, en það dugði ekki til og Valur vann 80-76.
Æsispennandi lokamínútur
Haukastelpur komu með rosalegt áhlaup í lok fjórða leikhlutans sem vann næstum leikinn. Í stöðunni 76-67 setti Rósa Björk Pétursdóttir þrist og í næstu sókn Vals töpuðu heimastúlkur boltanum. Haukar náðu ekki að refsa fyrir það og Aaliyah Whiteside setti tveggja stiga körfu til að koma muninum upp í 8 stig. Helena Sverrisdóttir tók sig þá til og setti magnaðan þrist með ca. 30 sekúndur eftir, 78-73. Guðbjörg fékk tvö víti en geigaði á báðum, Helena keyrði upp völlinn og setti annan stóran þrist og skyndilega var staðan orðin 78-76! Í næstu sókn Vals brutu Haukar á Whiteside eftir misskilning í vörninni og hún setti bæði vítin til að tryggja Völsurum sigurinn. Lokasókn Hauka rann út í sandinn og Valur slapp með skrekkinn.
Tölfræðin lýgur ekki
Valur hitti miklu betur í þessum leik en þeim seinasta (48% skotnýting vs. 31%) og vörn þeirra var margfalt betri. Haukar töpuðu 24 boltum í þessum leik og áttu í miklu basli á köflum að senda inn í teiginn og út úr honum, enda pökkuðu Valsstúlkur inn í teig. Það sást kannski best á því að Haukar skoruðu aðeins 26 stig inni í teig gegn 46 stigum Vals í teignum. Valur nýtti skotin sín betur (48% vs. 42%) og þurfti færri skottilraunir til þess (62 skot utan af velli vs. 66 hjá Haukum). Í svona naumum leik var það nóg til að tryggja sigur.
Bestar hjá liðunum
Aaliyah Whiteside var mjög góð fyrir Val í dag, en hún skoraði 32 stig, tók 4 fráköst, gaf 6 stoðsendingar, stal 4 boltum og varði eitt skot. Guðbjörg sýndi sitt rétta andlit í þessum leik og hitti miklu betur utan af velli (38% í dag vs. 20% seinast, þ.a. 67% í þriggja stiga skotum). Hún lauk leik með 18 stig, 4 fráköst og 4 stolna bolta. Hallveig Jónsdóttir var sömuleiðis betri í þessum leik, en hún skoraði meira í dag úr færri skottilraunum (11 stig í 9 skottilraunum). Bergþóra, sem skoraði aðeins eitt stig í seinasta leik, skoraði 4 stig að þessu sinni ásamt því að sækja 9 fráköst, gefa 5 stoðsendingar og stela 3 boltum. Hún tapaði aftur á móti 6 boltum, sem var þó ekki flestir töpuðu boltarnir í leiknum! Hjá Haukum voru Helena Sverrisdóttir og Whitney Frazier bestar en þær vantaði meira framlag frá öðrum. Helena sótti aðra þrefalda tvennu (26 stig, 13 fráköst og 12 stoðsendingar) og Whitney skoraði 18 stig og sótti 9 villur. Hún Whitney var aftur á móti með 7 tapaða bolta sem var það mesta hjá öllum leikmönnum í dag. Þóra Kristín Jónsdóttir skoraði 14 stig fyrir Hauka á fyrstu 10 mínútum leiksins en skoraði ekkert meira allan leikinn, þó að hún hafi reyndar stolið 4 boltum (og tapað 5 slíkum).
Kjarninn
Valur sýndu hörku í þessum leik sem vantaði í þær í leik 1. Þær virtust hafa ákveðið að taka fastar á Haukum og sýna þeim ekki vott af virðingu. Það var ekki fyrr en á lokamínútum leiksins að þær slökuðu aðeins á, sem varð einmitt til þess að þær töpuðu næstum leiknum sem að þær leiddu mest með 16 stigum í byrjun fjórða leikhluta. Minni spámenn Hauka verða augljóslega að stíga betur upp ef að þær vilja vinna svona leiki þar sem að Valur ætlar að reyna að þjarma að máttarstólpum liðsins, þeim Helenu og Whitney.
Tölfræði leiksins
Myndasafn
Viðtöl eftir leikinn:
"Við náðum að laga allt sem að við töluðum um í seinasta leik."
"Hefðum mátt klára leikinn betur."
"Grautfúlt að tapa, en við getum lært slatta af þessum leik."
Umfjöllun og viðtöl / Helgi Hrafn Ólafsson
Myndasafn / Torfi Magnússon