spot_img
HomeÚti í heimiEvrópaHaukar Special Olympics fóru með tvö lið á alþjóðlegt mót í Svíþjóð...

Haukar Special Olympics fóru með tvö lið á alþjóðlegt mót í Svíþjóð – Bára: Þessi ferð var frábær í alla staði

Special Olympics lið Hauka tók á dögunum ný skref og hélt á mót til Lund í Svíþjóð, en félagið fór með tvö lið á mótið.

Hægt er að sjá myndband frá mótinu hér fyrir neðan ásamt nokkrum myndum, en Karfan ræddi við þjálfara Hauka Báru Fanneyju Hálfdánardóttur um vegferð félagsins, hvernig hafi gengið á mótinu og hverjar framtíðaráætlanirnar séu.

Sagði Bára Fanney þau Kristinn Jónasson og Thelmu Þorbergsdóttur hafa stofnað Hauka Special Olympics árið 2018 og ættu þau dreng í liðinu sem hafði áhuga á að æfa körfubolta, enn frekar sagði hún ,,Á fyrstu æfingunni mættu þrír iðkendur en svo hægt og rólega stækkaði hópurinn. Í dag erum við með um 40 iðkendur á aldrinum 6-16 ára. Við skiptum hópnum í tvennt, yngri og eldri. Yngri hópurinn er fyrir krakka á aldrinum 6-11 ára og eldri hópurinn 12-16 ára. Báðir hópar æfa tvisvar í viku í Hraunvallaskóla.” Þá sagði Bára krakkana flesta koma af höfuðborgarsvæðinu, en einnig væru einhverjir af Suðurnesjunum.

Um hvernig það hafi komið til að Haukar Special Olympics og Bára hafi farið með lið til Södertalje sagði Bára: “Það hefur lengi verið stefnan okkar að keppa á móti erlendis og fá tækifæri að spila á móti öðrum Special Olympics liðum. Fyrir um ári síðan hafði ég samband við Special Olympics á Norðurlöndunum til þess að búa til tengsl við önnur lið og fékk þá boð frá Svíþjóð um þátttöku á Basketligen Special. En það er körfuboltadeild í Svíþjóð sem keppir þrisvar á ári. Í ár voru 18 lið sem tóku þátt, flest voru frá Svíþjóð, eitt frá Noregi og tvö Haukalið.” Um hvernig skipulagið hafi verið sagði Bára ,,Þessi ferð var frábær í alla staði. Við vorum 40 sem fórum út saman, 16 leikmenn, þrír þjálfarar og svo öflugt hvatningarteymi.”

Í riðil Hauka sagði Bára hafa verið Höganes basket, Brahe Suns, Marbo Olympics, HaukarSO1 og HaukarSO2 hafa verið með lið og að þetta hafi verið hörku leikir, þá sagði hún ,,spilað var 2×15, 5á5 á stórum velli með stórar körfur. Við náðum þremur sigrum og töpuðum þremur hörkuspennandi leikjum.”

Varðandi nánustu framtíð sagði Bára ,,Næsta skref er að keppa á Íslandsleikunum 2025 sem fer fram á Selfossi í lok mars og svo höldum við okkar eigið HaukaSO mót í maí þar sem við bjóðum liðum að taka þátt. Á því móti er spilað bæði HaukarSO vs gestir en líka unified leikir. Unified körfubolti er mjög vinsæll erlendis og það er eitthvað sem við höfum áhuga á að gera betur hjá okkur.”

Um hvort að á döfinni væru fleiri mót hjá Haukum Special Olympics erlendis sagði Bára ,,Við erum ekki byrjuð að skipuleggja næstu ferð erlendis en þar eru mörg skemmtileg tækifæri. Við munum taka aftur þátt á Basketligen Special það er alveg öruggt, þetta var rosalega flott mót. Liðin í Svíþjóð sýndu mikinn áhuga á að koma til Íslands þannig kannski höldum við okkar eigið mót eftir nokkur ár.”

Að lokum bætti hún svo við ,,Það eru haldin reglulega Special olympics mót í Evrópu sem væri gaman að taka þátt í og svo eru líka í boði að taka þátt á Special Olympics unified mótum, sem við höfum aðeins verið að skoða. Það er algengt að aldurtakmarkið á þessi stærri mót er 16 ára og því erum við enn með frekar ungt lið. Það væri líka gaman að fá tækifæri til þess að keppa á Special Olympics World games, það er svona stóra markmiðið en enn nokkur ár í það.”

Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir frá mótinu sem og myndband sem Special Olympics Iceland birti á dögunum.

Fréttir
- Auglýsing -