Breiðablik tók á móti Haukum í kvöld í Smáranum í Dominosdeild kvenna. Breiðablik mættu kokhraustar til leiks og stefndu að sínum öðrum sigri í vetur. Þær byrjuðu gríðarlega vel og komu Haukum gjörsamlega í opna skjöldu í fyrsta leikhluta. Haukum tókst þó að koma sér inn í leikinn í öðrum og þriðja leikhluta áður en þær gjörsamlega tóku yfir fjórða leikhluta. Þrátt fyrir afleitar fyrstu 9 mínútur leikhlutans, missa 2 leikmenn útaf með 5 villur, aðeins 3 stig og komnar 13 stigum undir neituðu nýliðarnir að gefast upp og skoruðu 10 stig á loka mínútunni en Haukar voru komnar í of góða stöðu og endaði leikurinn 73-82 Haukum í vil.
Eins og áður sagði þá byrjuðu Breiðablik leikinn glimmrandi vel þar sem boltahreyfingin í sókninni var glæsileg að sjá. Það skilaði sér í fullt af opnum færum og voru Breiðablik hreinlega óstöðvandi fyrir aftan þriggja stiga línuna þar sem þær settu meðal annars fjóra þrista niður í röð sem kom þeim í 18-6. Eftir það jafnaðist leikurinn og skiptust liðin á körfum til loka leikhlutans sem endaði 24-11.
Haukar komu ákveðnari til leiks í öðrum leikhluta leiddar áfram af Lele Hardy og Auði Írisi Ólafsdóttur sem voru duglegar að ógna körfunni. Hardy átti einmitt skemmtilega sendingu yfir endilangan völlinn þar sem Sylvía Rún Hálfdanardóttir var mætt fremst í hraðaupphlaupi sem hún skoraði úr þrátt fyrir að hafi verið brotið á henni og minnkaði hún þar muninn í 8 stig. Henni tókst þó ekki að nýta vítið og átti það eftir að vera eitthvað sem myndi endurtaka sig aftur og aftur hjá Haukunum í leiknum. Eftir þessa körfu Sylvíu sögðu Breiðablik stopp og juku þær muninn aftur í 11 stig, 39-28, eftir meðal annars tvær góðar körfur frá Jóhönnu Björk Sveinsdóttur.
Þriðji leikhlutinn var í töluverðum járnum. Alltaf þegar Haukar voru að fara gera sig líklegar til að minnka muninn töluvert skoraði Jóhanna fyrir blika til að stöðva framgang Hauka. Haukar létu það hins vegar ekki brjóta sig niður og voru þær mjög duglegar undir lok leikhlutans að sækja að körfunni og fá Breiðbliksstúlkur til að brjóta á sér. 10 vítaskot í leikhlutanum hjálpaði Haukum að laga stöðuna í 60-53.
Unnur Lára Ásgeirsdóttir smellti niður þrist eftir aðeins 17 sekúndur í fjórða leikhluta en eftir hana snarstoppaði allt hjá Breiðablik og liðu heilar 9 mínútur þangað til þær skoruðu næst. Haukar keyrðu á þær og gekk gríðarlega vel að sækja villur. Berglind Karen Ingvarsdóttir fékk sína 5. villu á 33. mínútu og fylgdi Jóhanna í kjölfarið á 37. mínútu. Á þessum 9 mínútna kafla sem Breiðablik tókst ekki að skora settu Haukar 23 stig og voru þær því komnar í þægilega 13 stiga forustu, 63-76, með aðeins eina mínútu til leiksloka. Breiðablik neituðu hins vegar að leggjast á hliðina og gefast upp. Leiddar áfram af Kristbjörgu Pálsdóttur, sem setti niður þrjá þrista, skoruðu þær 10 stig til að enda leikinn á. Það var þó ekki nóg þar sem að Haukar nýttu 8 af 10 vítaskotum sínum á þessari loka mínútu.
Stigahæstar hjá Breiðablik voru: Arielle Wideman með 16 stig, 15 fráköst og 7 stoðsendingar. Jóhanna Björk Sveinsdóttir og Kristbjörg Pálsdóttir með 14 stig hvor.
Stigahæstar hjá Haukum voru: Lele Hardy með 25 stig, 16 fráköst, 4 stoðsendingar og 4 stolna bolta. Sylvía Rún Hálfdanardóttir með 21 stig og 5 fráköst og Auður Íris Ólafsdóttir með 12 stig.
Mynd – Axel Finnur/ Sylvía Rún Hálfdanardóttir skoraði 21 stig í kvöld þar af 8 í fjórða leikhluta.