Lið Tindastóls tók á móti Haukum í Geysisbikarkeppni kvenna í körfuknattleik í Síkinu á Sauðárkróki í dag. Tindastóll er meðal efstu liða í 1. deild en Haukar eru um miðja Dominos deildina og hafa líklega ekki enn sýnt að fullu hvað í þeim býr.
Heimastúlkur byrjuðu leikinn mjög vel og virtust ná að slá sterkt lið gestanna aðeins út af laginu. Tindastóll komst í 11-5 forystu eftir rúmar 3 mínútur með tveimur vítum frá Tess. Þá sögðu Haukar hingað og ekki lengra, spýttu í lófana í varnarleiknum og fóru að setja niður skot og enduðu fjórðunginn með 21-34 forystu. Þetta var munur sem heimakonur voru aldrei líklegar til að brúa þrátt fyrir hetjulega baráttu. Haukakonur hertu á skrúfunum í öðrum fjórðung og Tindastóll náði aðeins að skora 9 stig í viðbót í fyrri hálfleik og virkuðu oft á tíðum ráðalausar gegn sterkri Haukavörn. Á meðan fór flest niður hinumegin og þegar upp var staðið höfðu Haukar hitt úr 43% þriggja stiga skota sinna í leiknum sem er með ólíkindum.
Heimakonur náðu aðeins að 3ja leikhluta, töpuðu færri boltum og settu fleiri stig enda pressan aðeins farin að léttast hjá Haukunum. Mikil þreyta einkenndi þó síðasta leikhlutann á meðan Haukar héldu áfram að hitta og fór svo að þær unnu leikhlutann 9-32 og leikinn með 67 stiga mun, 59-126. Úrslitin sýna vel þann mikla mun sem er á deildunum í dag og er dýrmæt reynsla fyrir ungt lið Tindastóls sem stefnir á að komast í efstu deild á næstu árum.
Tess var stigahæst heimakvenna með 21 stig og 7 fráköst og Telma og Eva Rún áttu ágætis spretti. Hjá Haukum var Jannetje Gujit stigahæst með 21 stig en hún hitti úr 4 af 6 þriggja stiga skotum sínum í leiknum. Þóra Kristín var líka geysiöflug og var með 19 stig, 12 fráköst og 5 stolna bolta, samtals 38 framlagsstig. Uppalin Tindastólsstúlka, Bríet Lilja Sigurðardóttir lék flestar mínútur Hauka í leiknum og endaði sömuleiðis með 19 stig og tók 6 fráköst að auki.
Myndasafn (væntanlegt)
Umfjöllun, myndir, viðtöl / Hjalti Árna