Haukar sigruðu Keflavík þegar liðin áttust við í Schenkerhöllinni í kvöld í Domino's deild kvenna. Haukar ætluðu sér greinilega ekki að láta leikinn endurtaka sig frá því að þær töpuðu á móti Snæfelli í Stykkishólmi fyrir rúmri viku og komust yfir 7-0 áður en Sandra Lind setti niður fyrstu stig Keflavíkur. Góður varnarleikur Haukanna með Pálínu Gunnlaugsdóttur í broddi fylkingar hélt Keflavík í 15 stigum í leikhlutanum en Sólrún Inga Gísladóttir lokaði honum með þriggja stiga körfu fyrir Hauka í þann mund sem klukkan rann út. Heimakonur leiddu að honum loknum með 11 stigum, 26-15.
Helena Sverrisdóttir spilaði stórvel fyrir Hauka í fyrsta leikhluta, skoraði 11 stig (með 5 af 6 í skotum), tók 3 fráköst og gaf 4 stoðsendingar. Hjá Keflavík voru það Sandra Lind Þrastardóttir og Emelía Ósk Gunnarsdóttir sem sáu að mestu um stigaskorið, en Sandra Lind var komin með 6 stig og 4 fráköst eftir fyrsta leikhluta og Emelía Ósk með 5 stig.
Sandra Lind setti niður sniðskot og víti fyrir Keflavík í upphafi annars leikhluta og minnkaði muninn niður í 8 stig. Pálína svaraði um hæl með þristi fyrir Hauka sem í kjölfarið settu í annan gírinn, lokuðu á sóknarleik gestanna og juku forystuna í 21 stig áður en Sverri Þór, þjálfari Keflavíkur, tók sitt annað leikhlé í leikhlutanum. Keflvíkingar mættu sprækari til leiks eftir leikhléið og braut Thelma Dís Ágústsdóttir ísinn fyrir þær þegar hún setti niður tvö stig eftir fallegt spil og stoðsendingu frá Þórönnu Hodge-Carr. Haukar leiddu í hálfleik með 19 stigum, 47-28, og munaði þar um framlag af bekknum. Hjá Keflavík voru einungis fjórir leikmenn komnir á blað, þær Sandra Lind og Guðlaug Björt með 9 stig hvor og Thelma Dís og Emelía Ósk með 5 stig hvor en stigaskor Haukanna dreifðist hins vegar á milli 9 leikmanna og komu 19 stig af bekknum hjá þeim í fyrri hálfleik.
Keflvíkingar mættu grimmari til leiks í upphafi seinni hálfleiks, voru duglegar að sækja sóknarfráköstin og óhræddar við að keyra á körfuna. Þær settu fyrstu sjö stig hálfleiksins og munurinn skyndilega kominn niður í 12 stig. Haukar voru þó ekki tilbúnir til að hleypa Keflavík nær og fóru þær inn í seinasta fjórðunginn með 18 stiga forystu, 68-50. Chelsie Schweers var drjúg fyrir Hauka í leikhlutanum og skoraði 10 stig og Melissa Zornig sem ekki komst á blað í fyrri hálfleik setti 8 stig fyrir Keflavík. Katla Rún Garðarsdóttir og Írena Sól Jónsdóttir komu sterkar inn af bekknum hjá Keflavík í seinni hálfleik og skoruðu 5 stig hvor. Þá bætti Marín Laufey við 5 stigum áður en hún þurfti að fara af velli með fimm villur rétt undir lok leiks. Keflvíkingar minnkuðu forystu Hauka niður í 11 stig um miðjan fjórða leikhluta en Haukarnir voru sterkari á endasprettinum og lönduðu öruggum 20 stiga sigri, 89-69.
Helena Sverrisdóttir átti stórleik fyrir Hauka í kvöld, skoraði 19 stig, tók 14 fráköst, gaf 9 stoðsendingar og stal 7 boltum en þetta skilaði henni 43 framlagsstigum. Chelsie Schweers var stigahæst Haukakvenna með 27 stig og 7 fráköst og Sylvía Rún Hálfdánardóttir skilaði 12 stigum á 16 mínútum.
Hjá Keflavík var Sandra Lind Þrastardóttir stigahæst með 18 stig og 7 fráköst, Guðlaug Björt Júlíusdóttir skoraði 14 stig, tók 6 fráköst og gaf 6 stoðsendingar og Emelía Ósk Gunnarsdóttir skoraði 9 stig.
Stöð 2 Sport ræddi við Sverri Þór þjálfara Keflavíkur og Helenu spilandi þjálfara Hauka eftir leik liðanna í Schenkerhöllinni í kvöld.
Sverrir Þór þjálfari Keflavíkur „Það var of mikil virðing borin fyrir Haukum og smá hræðsla í mínum hóp. Við komum af krafti í seinni hálfleik og fengum gott framlag af bekknum og náðum þessu niður en Haukar eru með reynda leikmenn og hörkulið og kláruðu verkið. Þetta var ekki ósvipað og í leiknum gegn Snæfell og okkur vantar tilfinnanlega leiðtoga á vellinum enda flestir okkar leikmenn 20 ára og yngri. Ég hefði viljað sjá meira framlag frá Melissu í dag en hún átti erfitt uppdráttar og við bara megum ekki við því.“
Aðspurður um tíðindi dagsins og komu WNBA leikmannsins Monica Wright til Keflavíkur svaraði Sverrir: „Hún mætir um helgina en spilar ekki strax, hún kemur inn í myndina hjá Keflavík áður en ég tók við liðinu en hún hefur verið meidd og kemur vonandi á fullu inn eftir nokkrar vikur. Melissa verður áfram hjá okkur en Monica mun vonandi styrkja þetta vel hjá okkur.“
Helena Sverrisdóttir spilandi þjálfari Hauka „Mér fannst leikurinn ekki nægilega góður hjá okkur en 20 stiga sigur er flott. Við náðum að spila vel í fyrri háflleik en vörnin var ekki nægilega góð í þeim seinni,“ sagði Helena og aðspurð um ósigurinn gegn Snæfell á dögunum sagði hún „Það er alltaf erfitt að tapa leikjum og hvað þá þeim stóru en við lærum af því enda nóg eftir og við eigum líka eftir að mæta þeim einu sinni enn í deildinni,“ sagði Helena.
Á dögunum varð það að umtalsefni að hún hefði ekki gefið kost á viðtali eftir leik í Stykkishólmi en Helena vísaði þeirri upprifjun spyrilsins til föðurhúsanna: „Það er bara kjaftæði, þeir (sérfræðingarnir í Körfuboltakvöldi) mega segja það sem þeir vilja en fyrir mér er þetta mál búið. Vonandi getum við haft jákvæða umfjöllun í framhaldinu.“
Haukar 89 – 69 Keflavík (26-15, 21-13, 21-22, 21-19)
Stigaskor Hauka: Chelsie Alexa Schweers 27 stig/7 fráköst, Helena Sverrisdóttir 19 stig/14 fráköst/9 stoðsendingar/7 stolnir, Sylvía Rún Hálfdánardóttir 12 stig, Jóhanna Björk Sveinsdóttir 9 stig/5 fráköst, María Lind Sigurðardóttir 8 stig, Pálína María Gunnlaugsdóttir 5 stig/4 stoðsendingar, Dýrfinna Arnardóttir 4 stig, Sólrún Inga Gísladóttir 3 stig, Hanna Þráinsdóttir 2 stig, Auður Íris Ólafsdóttir 0 stig/6 fráköst, Shanna Dacanay 0 stig, Þóra Kristín Jónsdóttir 0 stig.
Stigaskor Keflavíkur: Sandra Lind Þrastardóttir 18 stig/7 fráköst, Guðlaug Björt Júlíusdóttir 14 stig/6 fráköst/6 stoðsendingar, Emelía Ósk Gunnarsdóttir 9 stig/4 stoðsendingar, Melissa Zornig 8 stig, Thelma Dís Ágústsdóttir 5 stig/7 fráköst, Írena Sól Jónsdóttir 5 stig, Katla Rún Garðarsdóttir 5 stig, Marín Laufey Davíðsdóttir 5 stig, Andrea Einarsdóttir 0 stig, Þóranna Kika Hodge-Carr 0 stig, Elfa Falsdóttir 0 stig, Bríet Sif Hinriksdóttir 0 stig.
Mynd úr safni: Helena Sverrisdóttir átti stórleik fyrir Hauka í kvöld og var með 43 framlagsstig (Davíð Eldur)