spot_img
HomeBónus deildinBónus deild kvennaHaukar með annan sigurinn í röð á toppliði

Haukar með annan sigurinn í röð á toppliði

Haukar sóttu annan mikilvægan sigur á heimavelli í dag í fyrsta leik á nýju ári gegn sterku liði KR. Heimastúlkur byrjuðu leikinn illa en tóku síðan forystuna og héldu henni nærri því alla viðureignina. Á seinustu metrunum gerðu Hafnfirðingar leikinn aðeins meira spennandi með slökum kafla en unnu að lokum með þremur stigum, 72-69.

Fyrir leik

Nýtt ár, nýtt tímabil. Ömurlega veðurspá mest allan daginn hefði getað sett strik í reikninginn en skömmu fyrir leik skánaði veðrið. Það var óvíst á tímabili hvort að þjálfarar beggja liða kæmust á leikstað. Ólöf Helga, þjálfari Hauka, býr í Grindavík og Benni Gumm, þjálfari KR, var að koma frá Þorlákshöfn. Bjarni Magnússon, aðstoðarþjálfari Hauka, var til reiðu ef að Reykjanesbrautin væri lokuð og Ingi Þór Steinþórsson var reiðubúinn að stýra KR ef Benni kæmist ekki. Sem betur fer voru báðir þjálfarar mættir fyrir upphaf leiks.

Haukar höfðu fengið Evu Margréti aftur í búning eftir að hún hafði verið úti nærri allt tímabilið vegna höfuðmeiðsla. KR var heldur lengra frá því að vera í fullum styrk. Margrét Kara Sturludóttir var úti vegna lungnabólgu og Hildur Björg Kjartansdóttur átti að fylgja afa sínum til grafar í dag, en jarðarförinni hafði verið frestað til morguns vegna veðurs.

Gangur leiksins

Leikurinn byrjaði ekki vel fyrir heimastúlkur sem voru í miklu basli með að skora gegn KR fyrstu fimm mínúturnar. Í stöðunni 3-13 eftir tæpar fimm mínútur tók Ólöf Helga leikhlé væntanlega til að ræða við sínar stelpur um daufa sókn og slaka vörn.

Stelpurnar brugðust vel við leikhléinu og tóku 8-2 áhlaup næstu mínúturnar. Á sama tíma fóru KR-ingar aðeins að missa einbeitinguna og fóru stundum að hugsa óþarflega mikið um dómgæsluna. Það ætlaði allt um koll að keyra á lokasekúndum fyrsta leikhluta þegar Sóllilja Bjarnadóttir fékk tæknivillu fyrir leikaraskap þegar hún var að verjast gegn Lovísu Björtu Henningsdóttur sem fékk körfuna sem að hún skoraði dæmda gilda. Benni Gumm var alls ekki sáttur við það og uppskar tæknivillu sömuleiðis. Haukar skoruðu því fjögur stig á lokasekúndum fyrsta fjórðungsins og leiddu 21-19 eftir tíu mínútur.

KR var að framkvæma sóknir sínar vel í öðrum leikhluta en varnarlega voru þær að leyfa Haukum að fá opna þrista og að berjast meira um boltann. Benni Gumm var fljótlega búinn að taka leikhlé eftir nokkrar mínútur og bað leikmenn sína um að verjast betur gegn þristunum, eins og hann hafði beðið þær um að gera í leiknum.

Áfram héldu vandræðin og KR-ingar voru fljótar að komast í villuvandræði. Sanja Orazovic virtist andlega víðsfjarri á köflum varnarlega og Haukar gengu á lagið sóknarlega gegn henni og fleirum. Benni notaði seinna leikhléið sitt minna þremur mínútum eftir það seinasta vegna þess að staðan ekkert breyst og reyndar versnað! Haukar leiddu í hálfleik með sex stigum, 40-34.

Gestirnir mættu í seinni hálfleik með annað byrjunarlið en í byrjun leiksins, mjög hávaxið lið. Meðalhæðin hjá KR var 180 cm, nokkuð meira en hjá Haukum, þrátt fyrir að þær ættu hávaxnasta leikmanninn í Lovísu Björtu. Vandræðin héldu áfram hjá KR og villurnar hlóðust áfram upp. Dani Rodriguez fékk óíþróttamannslega villu eftir tvær mínútur og Ástrós Lena Ægisdóttir fór út af með fimm villur eftir aðeins 6 mínútur.

Haukar náðu mest þrettán stiga forystu í þriðja leikhluta en misstu aðeins flugið eftir því sem leið á fjórðunginn. Slök vítanýting hjá þeim hafnfirsku leiddi til þess að þær leiddu „aðeins“ með níu stigum eftir 30 mínútur, 60-51.

KR-ingar ætluðu ekki að gefast upp og með flottu framlagi frá Dani Rodriguez fóru þær svart-hvítu að saxa á forystuna. Haukar virtust skyndilega pínu litlar í sér og í stöðunni 63-60 eftir rúmar þrjár mínútur af fjórða leikhluta tók Ólöf Helga fyrsta leikhléið sitt í seinni hálfleik. Það lagaði stöðuna eilítið en Haukastúlkur héldu áfram að klikka úr opnum sniðskotum. Taugarnar voru augljóslega að fara með þær.

Dani Rodriguez jafnaði stöðuna 65-65 með þristi úr horninu þegar rúmar þrjár mínútur lifðu leiks og Ólöf Helga sá sig þá knúna til að taka annað leikhlé. Gætu heimastúlkurnar hennar unnið leikinn ef að KR kæmist yfir?

KR komst yfir með laglegu sniðskoti hjá Unni Töru Jónsdóttur þegar tvær og hálf mínúta var eftir en Sigrún Björg Ólafsdóttir jafnaði stöðuna strax í næstu sókn. Þvílíkur leikur!

Villuvandræði KR gerðu aftur vart við sig þegar Hildur Björg braut á Jannetje Guijt, hollenskum leikmanni Hauka. Heimaliðið var þá komið í bónus og Jannetje fór á vítalínuna og setti niður tvö svellköld vítaskot til að koma Haukum í tveggja stiga forystu. Sanja í KR sýndi stórkostlegt gáleysi þegar hún fékk dæmda á sig sóknarvillu á Randi Brown á miðjum velli vegna gremju út í varnartilburði Randi. Benni Gumm tók fyrsta leikhléið sitt í seinni hálfleik með tæpa mínútu eftir af leiknum.

Randi Brown hafði staðið sig vel í að sækja grimmt á körfuna í leiknum og komst með herkjum aftur í sniðskot sem gaf Haukum fjögurra stiga forystu! Hildur Björg, miðherji KR, var fljót að minnka muninn á hinum enda vallarins í næstu sókn. 71-69 með átján sekúndur eftir.

Sanja Orazovic fékk sína fimmtu villu næstum því strax og Randi Brown fór á vítalínuna. Áfram hélt slaka vítanýtingin hjá Haukum, enda setti Randi aðeins seinna vítaskotið. KR gátu jafnað í seinustu sókninni. Benni Gumm tók seinasta leikhléið sitt.

KR fékk góða sókn og Hildur Björg fékk ágætt þriggja stiga skot en Randi Brown náði að verja skotið! Unnur Tara tók sóknarfrákast og Hildur fékk annað tækifæri til að framlengja leikinn með annarri þriggja stiga tilraun. Allt kom fyrir ekki og Haukar unnu því annað stórliðið sitt í röð, 72-69.

Lykillinn

Randi Brown var besti leikmaður Hauka í kvöld með 23 stig, 11 fráköst, 4 stoðsendingar, 2 stuldi og eitt varið skot. Leikmaðurinn sem skipti samt líklegast mestu máli var Jannetje Guijt. Hún skoraði aðeins tíu stig en þegar hún var inn á vellinum höfðu Haukar samanlagt 11 stiga forystu. Hún og Randi eiga því heiðurinn saman að vera lyklarnir að sigri Hauka.

Hjá KR var Dani Rodriguez best með 27 stig, 7 fráköst, 6 stoðsendingar og tvö varin skot. Hildur Björg átti fínan leik sömuleiðis með 20 stig og 12 fráköst.

Tölfræðin segir sitt

Haukar hittu hrikalega illa fyrir utan þriggja (5/30, 17% þriggja stiga nýting) en bættu upp fyrir það með því að sækja inn í teig og fá þannig helling af vítaskotum, 26 talsins. Þó vítanýtingin hafi, eins og áður sagði, verið slök (65%), þá dugði það til sigurs.

KR-ingar pössuðu hrikalega illa upp á boltann (21 tapaðir boltar) og gékk illa að sporna við sóknarfráköstum Hauka (14 talsins).

Kjarninn

Haukar hafa byrjað tímabilið illa og verið að kljást við alls kyns meiðsli og leikmannaskipti. Nú virðast þær hafa fundið rétta blöndu leikmanna og hafa nýtt jólafríið til að undirbúa sig fyrir komandi átök.

KR átti erfitt jólafrí og liðið náði ekki mörgum æfingum með tíu leikmönnum. Það er augljóslega ekki gott að mæta illa undirbúin í leik sem þennan og þær svart-hvítu þurfa að mæta miklu betur stemmdar í næsta leik.

Viðtöl eftir leik

Ólöf Helga: Allir á völlinn!
Benni Gumm: Jólafríið var ekkert frábært fyrir okkur.

Myndir: Bára Dröfn
Umfjöllun og viðtöl: Helgi Hrafn Ólafsson

Fréttir
- Auglýsing -