Haukar sóttu val heim að Hlíðarenda. Leikurinn var skemmtilegur og sáust mörg góð tilþrif í báðum liðum. Haukar höfðu að lokum 9 stiga sigur 82 – 73.
Haukar byrjuðu leikinn betur, en náðu aldrei að slíta Valskonur frá sér. Karisma Chapman hélt uppi merkinu fyrir val og var með 15 af 19 stigum þeirra í fyrsta leikhluta. Bæði lið léku hraðan sóknarleik og boltinn gekk vel, en leikmönnum gekk illa að hitta í körfuna. Liðin léku sömu uppskrift af maður á mann körfubolta þar sem skipt var á öllum hindrunum. Staðan að loknum fyrsta leikhluta var 19 – 20.
Í öðrum leikhluta tókst Valskonum að komast yfir, mest með góðum varnarleik. Munurinn var aldrei mikill á liðunum, en leikurinn var skemmtilegur á að horfa. Staðan 38 – 35 í hálfleik.
Í seinni hálfleik mættu liðin grimmari til leiks og pressuðu betur. Pálína fór á kostum í liði gestanna bæði í sókn og vörn, eftir að hafa haft frekar hægt um sig í fyrri hálfleik. Karisma var óheppin og fékk fingur í augað þegar þrjár mínútur voru liðnar af seinni hálfleik og varð að yfirgefa völlinn í nokkrar mínútur. Við þetta riðlaðist leikur Vals nokkuð, Haukar tóku upp á því að leika svæðisvörn og tókst að gera Valsmönnum erfitt fyrir. Haukar náðu forystu 58 – 64 eftir leikhlutann.
Í fjórða leikhluta voru Valskonur alltaf að elta. Þær náðu muninum niður í þrjú fjögur stig, en Helena átti þá alltaf svar. Leikurinn var spennandi og í járnum fram undir síðustu mínútuna, en Haukar skoruðu síðustu sex stigin í leiknum.
Í Valsliðinu var Karisma yfirburðaleikmaður með 35 stig og Hallveig kom næst með 16 stig. Í Haukaliðinu var Helena með stórleik, 31 stig og 14 fráköst. Pálína var með 23 stig og Sylvía Rún með 16.
Góðir dómarar leiksins voru Davíð Kristján Hreiðarsson og Ísak Ernir Kristinsson.
Mynd/Texti: Torfi Magg