Dráttur 8-liða úrslita Geysisbikarsins fór fram í hádeginu í dag. Haukastúlkur drógust gegn Grindvíkingum og fá þær í heimsókn seinnipart janúar, nánar tiltekið 19.-20., eftir áramót.
Lovísa Björt Henningsdóttir leit við í drættinum og ræddi við blaðamenn um leikinn sem væri framundan. Haukar hafa unnið báða leiki gegn Grindavík í deildarkeppninni hingað til. Fyrri leikurinn var nokkuð sannfærandi en ekki sá seinni þrátt fyrir að hann hafi unnist.
„Við erum ekki búin að sýna okkar besta hingað til gegn Grindavík, þannig að ég er mjög spennt að fá þær í heimsókn og sýna hvað í okkur býr,“ sagði Lovísa um það að spila aftur við Grindavík. Þjálfari Lovísu, Ólöf Helga Pálsdóttir, þjálfaði einmitt Grindavíkurliðið áður en hún kom til Hauka fyrir rúmu ári síðan. Lovísa sendi þjálfara sínum textaskilaboð þegar drátturinn lá fyrir og sagði að Ólöf Helga hefði svarað: ‘Haha, týpískt’. „Það er mjög týpíst að hún fái heimakonurnar sínar. Ég held að þetta verði skemmtilegt fyrir hana, að vinna heimaliðið sitt,“ sagði Lovísa um það að þjálfari hennar hafi dregist gegn gamla liðinu sínu.
Haukar hafa átt erfitt uppdráttar undanfarið með leikmannamál, en þær eru nýbúnar að skipta um bandarískan leikmann og meiðsli hafa verið að hrjá þær. „Já, við höfum verið upp og niður, svolítið búnar að finna okkur óheppnar með bandarískan leikmann og meiðsli,“ sagði Lovísa til staðfestingar á vandræðum síns liðs.
Ein sem að liðið saknar mikið er Eva Margrét Kristjánsdóttir, framherji liðsins og góður leikmaður þrátt fyrir ungan aldur. Hún hlaut alvarleg höfuðmeiðsli snemma á tímabilinu og hefur ekki getað spilað síðan. „Eva Margrét er ennþá úti, því miður. Hún er smátt og smátt að byrja að vera með að skjóta og svoleiðis. Skrefin eru lítil sem hún er að taka, en eru öll í rétta átt,“ sagði hún en vildi ekki ýta um of á endurkomu liðsfélaga síns.
Grindavík hefur líka tekið nokkrum skiptum síðan að tímabilið hófst. Þær skiptu nýlega um bandarískan leikmann en nú í dag komu fréttir um að Ólöf Rún Óladóttir, bakvörður Grindavíkur, væri með slitið krossband. Hvað skiptir þá mestu máli til að Haukastelpur vinni Grindavík í þriðja skiptið?
„Það sem ég held að við þurfum að einbeita okkur núna að á móti Grindavík er að byrja leikinn af krafti og ekki detta niður í að spila á þeirra stigi. Við viljum spila svolítið hraðann bolta og góða vörn og ég held að við þurfum bara að halda okkur striki og gera það sem við gerum vel,“ sagði Lovísa um viðureignina.
„Þetta er allt að koma núna hjá okkur, ég er spennt. Við erum orðnar betri, höfum ekki verið með fullt lið hingað til, en við erum allar að smella saman,“ sagði hún og bætti að lokum við: „Við erum með marga góða leikmenn í þessu liði og eigum mikið inni. Verðum mjög góðar eftir áramót.“