spot_img
HomeBónus deildinBónus deild karlaHaukar hirtu mikilvæg stig í röndóttum leik

Haukar hirtu mikilvæg stig í röndóttum leik

Haukar fengu heimsókn frá höfuðstað Vesturlands í kvöld í 6. umferð Dominos-deildarinnar. Liðin voru bæði með 4 stig í neðri pakka deildarinnar fyrir leikinn og því um svokallaðan fjögurra stiga leik að ræða. Bæði lið líta vafalaust svo á að þetta væri einn af ,,réttu leikjunum“ til að vinna þó stig séu ávallt góð hvaðan sem þau koma…

 

Spádómskúlan: Kúlan sér mikinn vilja í báðum liðum og spáir jöfnum leik. Þó bæði lið hafi ekki beint spilað vörn dauðans hingað til sér hún ekki stigaskorið ná mjög miklum hæðum í allri baráttunni. Kúlan finnur hafnfirska lykt í loftinu sem þýðir að Schenker-höllin muni ráða úrslitum og heimamenn enda ofan á 83-77 í hörkuleik.

 

Byrjunarlið:

Haukar: Oliver, Haukur, Arnór Bjarki, Hilmar, Kiddi

Skallar: Jackson, Buovac, Bjöggi, Bjarni, Eyjó

 

Gangur leiksins

Fyrstu mínúturnar voru alger hörmung fyrir heimamenn. Eftir þrjár mínútur var staðan 2-9 og Oliver farinn á bekkinn með tvær villur. Hjálmar Stefáns kom þá inn á fyrir Hauka í fyrsta sinn í vetur svo einhverja ljósglætu var þó að fá fyrir Hauka. Áfram voru samt gestirnir með kveikt á öllum og þegar 2 mínútur lifðu af öðrum leikhluta leiddu piltarnir frá höfuðstað Vesturlands 10-22. Haukamenn hitnuðu þá fyrir utan þriggja stiga línuna og náðu að minnka muninn í 18-26 fyrir leikhlutaskiptin.

 

Annar leikhluti var eins og spegilmynd þess fyrsta. Nú voru það Haukamenn sem rifu stemmninguna til sín. Á fyrstu mínútum leikhlutans hirtu heimamenn hvert sóknarfrákastið á fætur öðru og þá endar það með skoraðri körfu. Eftir aðeins 3 mínútur var staðan 28-30 og Finnur tók leikhlé til að reyna að kveikja ljósin aftur hjá sínum mönnum. Það tókst bara alls ekki og þegar 3 mínútur voru eftir af leikhlutanum leiddu Haukar 38-32 og Eyjó kominn á bekkinn með þrjár villur og 0 stig! Í hálfleik leiddu Haukar 46-36 og Ragnarök gestanna virtust runnin upp.

 

Körfubolti er skemmtilegur leikur og synir Egils úr Borgarnesinu fagra gáfust ekki upp. Skallar helltu líkast til einum bolla af sveppate í magann í hálfleik og gengu, eða öllu heldur hlupu berserksgang í þriðja leikhluta. Þeir keyrðu hreinlega yfir heimamenn og Oliver var sá eini sem eitthvað gerði af viti fyrir heimamenn í leikhlutanum enda þekkir hann ekki svo vel til berserkja. Þegar tvær mínútur lifðu af leikhlutanum voru gestirnir aftur komnir í bílstjórasætið, staðan 58-65. Aftur náðu Haukar ágætum endaspretti rétt eins og í fyrsta leikhluta og allt hnífjafnt, 67-67, fyrir lokaleikhlutann.

 

Minna var skorað og meira barist í fjórða leikhluta. Staðan var 74-73 í óratíma en Eyjó setti sín fyrstu stig og braut ísinn. Buovac bætti þristi við og staðan var þá 74-78 og 4 mínútur eftir. Hilmar Smári tók þá til sinna ráða og smellti í 2 þrista og sniðskot og kom sínum mönnum í 82-80. Sóknarleikur gestanna í lok leiks var eins og einhver uppdiktuð vitleysa úr One Tree Hill-þáttunum og þó Finnur hafi gert sér fulla grein fyrir því gafst ekki tækifæri til að fá leikhlé fyrr en 22 sekúndur lifðu leiks. Skallar áttu boltann og fengu því ágætt tækifæri til að jafna eða sigra með þristi en varnarleikur Hauka var frábær, e.t.v. í bland við ekki nægilega góða útfærslu á því sem Finnur teiknaði upp. Tíminn rann út og vægast sagt röndóttum leik lauk með 82-80 dýrmætum sigri Hauka.

 

Menn leiksins

Hilmar Smári var frábær í þessum leik, skoraði 23 stig, gaf 7 stoðsendingar og setti mikilvægustu skot leiksins niður. Hjálmar kom svo merkilega óryðgaður til leiks, skoraði 18 stig og tók 7 fráköst. Hjá gestunum var Bjöggi og Jackson langbestir með 23 stig hvor.

 

Kjarninn

Skallagrímsmenn áttu flotta spretta í leiknum og þeir geta vel tekið eitt og annað jákvætt út úr þessu. Liðið má illa við því að hafa Eyjó í tveimur stigum og engu líkara en að skammdegisþunglyndi eða önnur bagaleg mein séu að plaga drenginn. Bestu menn eiga sína slæmu daga en hann gaf þó 7 stoðsendingar og tók 8 fráköst í leiknum.

 

Haukamenn geta glaðst yfir því að hafa hirt stiginn og að Hjálmar er kominn aftur. Kristján Leifur er hins vegar að jafna sig eftir heilahristing og mikilvægt fyrir liðið að fá hann til baka sem fyrst. Ef liðið nær að spila eins og þeir gerðu á góðu köflunum, einkum í öðrum og fjórða leikhluta, þurfa þeir ekkert að óttast í framhaldinu.

 

Tölfræði leiks

 

Umfjöllun / Kári Viðarsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Fréttir
- Auglýsing -