Haukar höfðu fyrir leikinn unnið sex leiki og tapað einum en Álftanes hafði unnið fimm og tapað tveimur. Leikurinn í kvöld fór fram í Ólafssal og unnu heimamenn öruggan sigur, 107-78.
Það var jafnræði með liðunum í upphafi leiks en Haukar enduðu fyrsta leikhluta betur og leiddu með níu stigum eftir tíu mínútna leik. Jeremy Smith var virkilega öflugur í fyrsta leikhluta og setti níu stig á töfuna.
Orri Gunnarsson hitnaði í öðrum leikhluta og setti niður átta stig. Álftanes átti áfram erfitt með að skora og var það í raun einungis Cedrick Bowen sem gat talist frekar líklegur til þess að setja sína tilraun ofan í. Munurinn var 25 stig í hálfleik og í raun einungis spurning hversu stór sigur Hauka yrði. Haukar leiddu frákastabaráttuna 33-16 í hálfleik og á meðan Haukar settu sex af fjórtán þriggja stig skot ofan í þá settu Álftnesingar einungis tvö slík niður í átján tilraunum.
Bæði lið skoruðu 26 stig í þriðja leikhluta og Haukar bættu aðeins við forystuna í lokaleikhlutanum og unnu að lokum 29 stiga sigur. Heimamenn gengu frá leiknum í 2. leikhluta og leikurinn var því ekki lengi spennandi.
Næst mæta Haukar Hetti í toppbaráttuslag á föstudag. Álftanes mætir á sama tíma Sefossi.
Tölfræðin lýgur ekki:
Álftanes gekk illa að skora í fyrri hálfleik og Haukar unnu frákastabaráttuna sannfærandi.
Hetja leiksins:
Orri Gunnarsson, frábært skotval og 88% nýting. 22 stig, tveir stolnir boltar og enginn tapaður. Jose Medina, Deion Bune og Jeremy Smith áttu einnig virkillega góðan leik. Kristján Leifur kom þá virkilega öflugur af bekknum. Hjá Álftanesi var Cedric Bowen atkvæðamestur og Friðrik Anton Jónsson átti fínasta leik.
Dómarar: Jakob Árni Ísleifsson og Georgia Olga Kristiansen
Byrjunarlið Hauka: Jose, Jeremy, Emil, Orri og Deion.
Byrjunarlið Álftaness: Eysteinn, Ingimundur, Ragnar, Cedrick og Friðrik.