Liðin í þriðja og fjórða sæti deildarinnar mættust í 18, umferð Dominos deildar karla í kvöld. Stjarnan var fyrir leikinn fjórum stigum á undan Haukum og gátu stigið stórt skref að heimaleikjaréttinum í úrslitakeppninni. Haukar aftur á móti að komast í gang eftir erfiðann janúar mánuð og voru alls ekki klárir að hleypa Stjörnunni langt á undan sér. Því mátti búast við spennuleik í Ásgarði.
Planið hjá Stjörnunni var greinilega að Brandon Mobley átti ekki að fá neinn tíma hvorki með né án bolta og það fór fljótlega verulega í skapið á kauða. Tómas Þórður spilaði ævintýralega góða vörn á Mobley í fyrsta leikhluta og sá síðarnefndi fór stigalaus í hálfleik.
Fyrri hálfleikur var leikur varnanna eða lélega sóknarleiksins, gott dæmi um það er að staðan var 2-2 eftir fjögurra mínútna leik. Ágúst Angantýsson átti rosalega innkomu í fyrri hálfleik setti 8 stig og spilaði frábæra vörn.
Staðan var 13-14 eftir fyrsta leikhluta og varnarleikur beggja liða mjög góður, vert er að nefna varnarleik Kristins Marínóssonar í fyrri hálfleik en hann var frábær.
Haukur Óskarsson var langbestur í liði Hauka með 14 stig í fyrri hálfleik. Alonzo Coleman var slakur í fyrsta fjórðung en vaknaði hressilega í öðrum fjórðung og endaði með 14 stig, má segja að hann hafi endað allar sóknir Stjörnunnar sem voru að renna út í sandinn.
Hálfleikstölur 35-32 fyrir Stjörnunni, fyrri hálfleikur var stórskrýtinn þar sem Haukar voru með 20% skotnýtingu og Stjarnan var með tíu tapaða bolta. Fegurðin varð undir í baráttunni en áhugamenn um góðan varnarleik fengu helling fyrir peninginn.
Emil Barja kom frábær inní þriðja fjórðung og fór að stjórna Hauka liðinu sínu eins og herforingi. Framan af fjórðungnum skiptist liðin hreinlega á stigum og munurinn aldrei meiri en þrjú stig.
Gott áhlaup Hauka í lok leikhlutans kom þeim skrefi framúr Stjörnunni. Eitt af tilþrifum tímabilsins leit síðan dagsins ljós þegar Haukur Óskarsson setti flautukörfu með annarri hendi undir sinni eigin körfu yfir allan völlinn. Algjörlega ævintýraleg karfa sem kom þeim átta stigum yfir fyrir lokafjórðunginn.
Haukar náði að taka þann meðbyr með sér yfir í síðasta fjórðunginn og voru með pálmann í höndunum. Brandon Mobley gekk erfiðlega að halda sér á vellinum og fékk sína fimmtu villu þegar sjö mínútur voru eftir af leiknum og það hjálpaði þeim rauðklæddu ekki.
Munurinn á liðunum var sex stig þegar tvær og hálf mínúta var eftir af leiknum en tvær þriggja stiga körfur í röð frá Tómasi Heiðari og Arnþóri jöfnuðu leikinn. Stjarnan komst svo yfir þegar hálf mínúta var eftir með góðu skoti Tómasar Heiðars sem var heldur betur mikilvægur á lokasprettinum.
Stjarnan fékk boltann aftur eftir misheppnaða sókn Hauka og Tómas Heiðar var sendur á vítalínuna. Hann setti aðeins annað skotið og munurinn þrjú stig.
Haukar ruku af stað og Kári Jónsson reyndi að búa sér til þriggja stiga skot. Hann var með Tómas Heiðar í andlitinu á sér en það stoppaði hann ekki frá því að setja ótrúlega körfu, með einungis 2,7 sekúndur eftir. Stjarnan náði ekki stigi á þeim tíma og því framlenging staðreynd.
Þvílíkar lokamínútur og þetta var ekki búið. Haukar komu sterkari í framlenginguna og komust fljótt í fimm stiga forystu. Stjarnan virtist þá fyrst láta eftir og gestirnir gáfu ekki eftir og sigldu að lokum sigrinum heim.
Haukar geta verið gríðarlega stoltir af þessum sigri sem kemur þeim í baráttuna um þriðja sæti. Leikurinn í heild sinni var skrýtin og greinilegt að mikið var í húfi. Stjarnan var án Justin Shouse í leiknum auk þess sem Marvin var tæpur fyrir leik en spilaði þó. Heimamenn hafa enn innbyrgðis viðureignina á Hauka sem gefur þeim gott forskot.
Maður leiksins var Finnur Atli Magnússon, sem endaði með 20 stig og 13 fráköst, hann steig vel í skarð Brandon Mobley sem var úti á þekju í leiknum. Haukur, Kári og Emil voru einnig frábærir en Kristinn Marínósson verður einnig að vera nefndur, Hann spilaði stórkostlega vörn á Coleman á löngum köflum auk þess sem hann setti stór skot.
Hjá Stjörnunni var Coleman að daðra við tröllatvennu eða 20 stig og 19 fráköst. Einnig sýndi Tómas Heiðar styrk sinn í seinni hálfleik með flottri frammistöðu. Stjarnan getur að nokkru leiti sjálfum sér um kennt en þeir tapa hvorki meira né minna en 19 boltum í leiknum, en það er fáheyrt að vinna leiki með álíka tölfræði.
Þessi leikur gefur heldur betur fögur fyrirheit um úrslitakeppnina. Þessi lið geta mögulega mæst þá og ef spennan verður jafn mikil þá er veisla framundan.
Umfjöllun / Ólafur Þór Jónsson – @Olithorj
Myndir / Bára Dröfn