Tindastóll tók á móti Haukum í áttundu umferð Dominos deildar karla í kvöld. Flestir höfðu búist við öruggum sigri heimamanna og til að gera langa sögu stutta var fátt sem kom á óvart í þessum leik.
Gangur leiksins:
Sauðkrækingar settu fyrstu körfu leiksins og má segja að þar með hafi tóninn verið settur. Haukar leiddi aldrei í leiknum og gaf Tindastóll aldrei færi á sér eftir það.
Tindastóll náði 18-5 forystu í fyrsta leikhluta en Haukar náðu að minnka munninn í tvö stig í öðrum leikhluta og hóta áhlaupum. Staðan í hálfleik var 42-34.
Skagfirðingar bættu svo aftur í í seinni hálfleik og lönduðu að lokum sannfærandi 86-73 sigri.
Atkvæðamestir:
Hjá Tindastól var Shawn Glover öflugur með 29 stig og var þar með 80% skotnýtingu. Nick Tomsick var einnig sterkur með 16 stig, 5 fráköst og 7 stoðsendingar.
Emil Barja var stigahæstur hjá Haukum með 15 stig og bætti 6 stoðsendingum við það. Austin Bracey var með 14 stig og hitti öllum fimm skotum sínum.
Hvað næst?
Tindastóll hafa nú unnið tvo leiki í röð eftir erfitt tímabil í byrjun endurræsingar. Liðið mætir toppliði Keflavíkur í næsta leik.
Haukar hafa nú tapað sex leikjum í röð en liðið hefur einungis unnið einn leik eftir endurræsingu. Það þýðir að Haukar sitja einir á botni deildarinnar. Næsti leikur liðsins er gegn vængbrotnu liði Vals í Ólafssal.